Beint í efni

Saga Fræðagarðs

Stéttarfélagið Fræðagarður var stofnað þann 18. júní 2008 með sameiningu kjaradeildar Félags íslenskra fræða og Útgarðs. Með þessari stofnun sameinuðust tvö félög sem kjarna fortíð, nútíð og framtíð háskólamenntunar og vinnumarkaðs á Íslandi.

Félag íslenskra fræða var einn af stofnaðilum BHM árið 1958, félag sem sameinaði fólk sem rannsökuðu íslenska sögu og menningu. Útgarður var félagsskapur fólks með fjölbreytta menntun í þeim ólíku fögum sem urðu til á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, fólk sem fann sig ekki í hefðbundnu fagfélögunum innan BHM og stofnuðu sitt eigið félag.

Í dag heitir félagið Fræðagarður. Þar sameinast fólk með fjölbreytta og ólíka menntun að baki. Fræðagarður er stærsta aðildarfélag BHM og er ört vaxandi enda er þetta sá félagsskapur sem endurspeglar framtíðina, samfélag þar sem fjölbreytileiki, þverfagleg vinnubrögð og nýsköpun á vinnumarkaði skipta máli.

Félag íslenskra fræða

Félag íslenskra fræða var stofnað 27. apríl 1947. Félagsfólk var með menntun í íslenskum fræðum, menningarsögu, bókmenntum, fornleifafræði, listasögu, málfræði, sögu og þjóðfræði. Félag íslenskra fræða var eitt af ellefu stofnfélögum BHM þann 23. október 1958. Árni Böðvarsson málfræðingur var þá formaður félagsins en hann ritstýrði meðal annars Íslenskri orðabók handa skólum og almenningi og Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum I–VI, sem Jón Árnason safnaði.

Félag íslenskra fræða var bæði fagfélag og stéttarfélag og var sérstök kjaradeild félagsins stéttarfélag háskólamenntaðs safnafólks. Félag íslenskra fræða átti eftir að láta til sín taka í samfélaginu á vettvangi BHM en það átti hugmyndina að stofnun sérstakrar þjóðarbókhlöðu og lyfti þeirri hugmynd til vegs ásamt bandalaginu.

Utangarðsfólk stofnar félag

Framboð á hinum ýmsu greinum háskólanáms jókst verulega á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og konum fjölgaði hratt í háskólanámi. Nýjar stéttir og störf urðu til en oft voru í hópunum of fáir einstaklingar til þess að unnt væri að stofna fagfélög utan um hverja og eina stétt. Fámennu hóparnir með háskólamenntun voru því að nokkru landlausir þegar kom að því að velja stéttarfélag.

Árið 1973 fengu einstaklingar með háskólamenntun að ganga í BHM án þess að tilheyra aðildarfélagi. Árið 1976 neitaði Kjaradómur að fjalla um kjör þessara einstaklinga og vísaði slíkum málum frá dómi með þeim rökum að nauðsynlegt væri að hópurinn tilheyrði félagi sem færi með kjaramál. Brugðist var við með því að boða til fundar og var hóað í alla sem voru með einstaklingsaðild að BHM með það fyrir augum að stofna nýtt félag.

Stofnfundur Útgarðs var haldinn 29. maí 1978 og sátu hann 19 einstaklingar með aðild að BHM, þar af voru 10 úr hópi 14 fyrstu háskólamenntuðu hjúkrunarfræðinganna. Á fundinum var Ragnheiður Haraldsdóttir hjúkrunarfræðingur kosinn formaður þessa nýja félags en hjúkrunarfræðingar voru stærsti hópurinn innan BHM með einstaklingsaðild. Í þessari fyrstu stjórn Útgarðs voru kosnar fimm konur og tveir karlar.

Útgarðsfólk var í framlínunni að skapa nútíma vinnumarkað, þekkingarsamfélag 21. aldarinnar. Athyglisvert er að lesa fyrstu kröfugerðirnar sem Útgarður gerði fyrir félagsfólk sitt sem snerust um ný störf og mat á þeim. Þessi stöðuheiti eru mörg vel þekkt í dag en voru í kringum 1980 ný af nálinni. Má þar nefna dæmi eins og forstöðumann filmusafns sjónvarps, æskulýðsfulltrúa ríkisins, dagskrármann sjónvarps, kerfisfræðing, fræðslufulltrúa hjá Húsnæðismálastjórn, kvikmyndatökumann, deildarstjóra í Landsbókasafni, næringarfræðing og deildarstjóra sjúklingabókhalds ríkisspítalanna.

Nýsköpun, þekkingarmiðlun og þverfagleg nálgun til framtíðar

Stéttarfélagið Fræðagarður varð til með samruna þessara tveggja merku félaga, kjaradeildar Félags íslenskra fræða og Útgarðs. Fræðagarður var formlega stofnað 18. júní 2008, einum degi á eftir 17. júní þegar íslenska þjóðin fagnar lýðveldisstofnun og einum degi á undan 19. júní þegar við minnumst þess að konur fengu kosningarétt. Fyrsti formaður nýstofnaðs félags var sr. Bragi Skúlason.

Fræðagarður er þó ekki fámennt félag eins og kjaradeild Félags íslenskra fræða og Útgarður voru, heldur stærsta aðildarfélag BHM. Fræðagarðsfólk kemur úr öllum áttum og hefur ólíka menntun og reynslu.

Fræðagarður er ört stækkandi félag og er það ekki að undra þar sem félagsfólk hefur til að bera þekkingu og reynslu sem mikilvæg er á framtíðarvinnumarkaði. Nýsköpun, þekkingarmiðlun og þverfagleg nálgun gegnir lykilhlutverki á 21. öldinni og fólkið í Fræðagarði er í framlínunni að skapa þá framtíð.