Fara í efni

Vegna COVID-19

Fordæmalausar aðstæður hafa skapast í íslensku samfélagi vegna COVID-19. Útbreiðsla sjúkdómsins hefur verið hröð á heimsvísu.

Á Vefsíðu BHM er að finna upplýsingar sem félagsmenn Fræðagarðs geta nýtt sér þegar spurningar vakna um réttindamál á vinnumarkaði við þessar sérstöku aðstæður. 

Upplýsingar á vefsíðu BHM

Starfsþróunarsetur háskólamanna. Tímabundinn aukastyrkur vegna kostnaðar sem fæst ekki endurgreiddur vegna COVID-19

Borið hefur á því að félagsmenn stéttarfélaga, sem aðild eiga að Starfsþróunarsetri háskólamanna (STH), eru í tengslum við samþykktar umsóknir sínar að verða fyrir aukakostnaði vegna aðgerða í kjölfar COVID-19 eða fá ekki endurgreiðslu fyrir útlögðum kostnaði námskeiða sem felld hafa verið niður.

Vegna þessa hefur stjórn STH ákveðið að koma til móts við félagsmenn í þessum aðstæðum og gefa kost á viðbótarstyrk allt að 50.000 kr., sem gildir til 1. maí 2021, til þeirra sem þegar hafa sótt um styrk og verða fyrir aukakostnaði af þessum sökum. Styrkur þessi hefur ekki áhrif á styrkrétt viðkomandi.

Er því eftirfarandi styrkt (samtals að hámarki 50.000 kr.):

1. Breyting, niðurfelling eða kaup á nýju flugi

Styrkur er veittur fyrir breytingargjaldi flugs eða greiðslu á nýju flugi ef það er ekki er hægt að breyta flugi sem tilheyrir sama verkefni. Leggja þarf fram gögn um að endurgreiðsla fáist ekki og/eða að viðkomandi hafi ekki fengið tjónið bætt að fullu hjá kortafyrirtæki/tryggingafélagi sínu.

2. Kostnaður sem ekki fæst endurgreiddur

Styrkur er veittur til félagsmanna fyrir þeim kostnaði sem þeir hafa lagt út fyrir ef ekki er möguleiki á endurgreiðslu enda hafi þeir reikninga/greiðslukvittanir fyrir útlögðum kostnaði. Leggja þarf fram gögn um að endurgreiðsla fáist ekki.

Fjöldi myndbanda og gagnleg fræðsla fyrir alla félagsmenn aðildarfélaga BHM

Okkur langar að minna á rafrænu fræðsluna á vef BHM sem sett var á laggirnar í vor vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Tilefnið var að margir félagsmanna aðildarfélaga BHM hafa misst vinnuna eða eru á hlutabótaleið. Aðrir eru í störfum þar sem álag er mikið og langvarandi vegna ástandsins, annaðhvort í vinnu eða heima fyrir.


BHM vill leggja sitt af mörkum til þess að létta sínum félagsmönnum róðurinn og býður því upp á rafræna fræðslu sem er í senn praktísk og hvetjandi. 

Rafræna fræðslan er félagsmönnum að kostnaðarlausu og opin öllum, aðeins þarf að skrá sig til að fá aðgang að öllu efninu. Því er skipt í tvennt til að koma sérstaklega til móts við hvorn hópinn fyrir sig, en þeir sem skrá sig hafa samt sem áður aðgang að öllu.

Smelltu hér til að skrá þig. 

Meðal fyrirlestra eru:

  • Streita í skugga faraldurs - Þóra Sigfríður Einarsdóttir
  • Réttindi starfsmanns við uppsögn - Andri Valur Ívarsson
  • Betri svefn, grunnstoð andlegrar og líkamlegrar heilsu - Erla Björnsdóttir
  • Í leit að starfi - Geirlaug Jóhannsdóttir
  • Fjármál við atvinnumissi - Sara Jasonardóttir
  • Listin að breyta hverju sem er - Ingrid Kuhlman
  • Atvinnuleysistryggingar - Gísli Davíð Karlsson