Fara í efni

Gleymda stéttin

 

Í umræðu um kjaramál síðustu vikurnar hefur athyglin beinst að þeim lægst launuðu. Frá hruni hefur það oft verið áherslan. Krónutöluhækkanir hafa orðið niðurstaðan oftar en einu sinni. Það er ekki að ástæðulausu að ófaglærðir starfsmenn með lægstu launin hafi ítrekað bent á bága stöðu sína. En það hafa líka aldraðir einstaklingar, öryrkjar og yngra fólk sem vill eignast húsnæði en getur það ekki þar sem það kemst ekki í gegnum greiðslumat og á því eingöngu um að velja leigumarkað og/eða húsnæði hjá foreldrum.

Í allri þessari umræðu hefur millistéttin gleymst. Hún tók á sig margvíslegar byrðar í kjölfar hruns og áherslur hennar og þarfir eru ekki ofarlega í umræðunni. Ennþá síður ef við erum að tala um háskólamenntaða starfsmenn í millistétt. Viðkvæðið er allt of oft, að „þeir muni alltaf geta séð um sig“. En er það svo? Eða er það kannski þannig, að háskólamenntaðir starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði beri sífellt þyngri byrðar í formi álags við aðstæður undirmönnunar, þar sem menntun þeirra er ekki metin að verðleikum? Það eitt, að afla sér háskólamenntunar, er kostnaðarsamt fyrirtæki. Það geta menn séð ef ævitekjur einstakra stétta eru skoðaðar. Á Íslandi er háskólamenntun jafnvel minnst metin þegar skoðaðar eru samanburðartölur við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.

Verður bókvitið sett í askana?

„Mennt er máttur“ segjum við þegar við erum í hátíðarskapi. Foreldrar hvetja börn sín til að afla sér menntunar. Til hvers? Til að þessi sama menntun sé síðan einskis metin þegar menn líta til launaþróunar?

Misskipting auðs fer vaxandi á heimsvísu. Svo er líka á Íslandi. Það eru ekki bara þeir lægst launuðu í Íslensku samfélagi sem hafa búið við erfiða stöðu. Háskólamenntuðum starfsmönnum á Íslenskum vinnumarkaði hefur ýmsu verið lofað, bæði af opinberum aðilum sem öðrum, í stöðugleikasáttmálum sem í virðingarleysi. Samt er þeim ætlað að koma með nauðsynlega þekkingu, reynslu, nýsköpun og stöðugleika inn í íslenskt atvinnulíf. Flestir telja að þetta framlag skipti atvinnulíf okkar miklu máli. En ef enn og aftur verður litið framhjá þessum hópi í skiptingu þjóðarkökunnar í kjarasamningum næsta árs, þá getur vel farið svo, að menn sjái hag sínum betur borgið í framandi löndum. En er ástandið betra þar? Allvíða í Bandaríkjunum ræða menn um það hvernig millistéttin sé að deyja. Ég var í Ungverjalandi um daginn og þar eru margir sem hafa það ekki gott og einhverjir leita fyrir sér í öðrum löndum. Víða horfa menn yfir landamæri og þykir grasið grænna hinum megin.

Hvernig á Ísland að verða?

Síðan er það annað mál, sem er öllu athyglisverðara, að þær kröfur, sem fram hafa verið settar af fulltrúum stétta sem vilja fá mun stærri skerf til sín, eru vel út úr korti þegar framtíð efnahagslífsins er metin. Niðurstaðan um þau mál verður fengin við samningaborðið. Er það eina leiðin í kjaramálum á Íslandi að fara í það sem kallað hefur verið „höfrungahlaup“? Í þeim löndum sem við berum okkur saman við, t.d. á Norðurlöndum, fara menn ekki þessa leið. Þar fara menn yfir stöðuna út frá því sem er líklegt að útflutningsatvinnugreinarnar geti staðið undir og þar fer einkamarkaðurinn á undan. Því má heldur ekki gleyma, að fleira hefur áhrif á kjör og lífsfyllingu manna heldur en það sem hækkar launatölur. Kjarabarátta getur þannig verið lífskjarabarátta. Hún ætti að vera það.

Við höfum í Fræðagarði, stéttarfélagi háskólamenntaðra, verið að halda fundi með félagsmönnum nú í haust til að kanna hug þeirra til komandi kjaraviðræðna. Þar hafa menn ekki talið að „höfrungahlaup“ enn og aftur, sé lausnin á margháttuðum vanda í íslensku efnahagslífi. Húsnæðismálin hafa komið á dagskrá, en ekki einvörðungu fyrir þá sem eru að koma nýir inn á húsnæðismarkaðinn, heldur að margháttaðar þarfir bæði húsnæðiseigenda og leigjenda séu metnar. Bent er á velferðarkerfið og hvernig mætti bæta það, um aukna greiðsluþátttöku sjúklinga, óráðsíu í meðferð fjármuna hjá opinberum aðilum, sjálftöku hjá þeim hópum sem geta. Þá er kallað eftir því að kjörnir fulltrúar leiði með góðu fordæmi. Rætt var um símenntunarleiðir í ljósi 4. iðnbyltingarinnar, um réttindamál launþegar, um „gig hagkerfið“, um sameiningu lífeyrissjóða, um styttingu vinnuvikunnar.

Orð eru til alls fyrst

Það er víða áberandi í samfélagi okkar, að traust þarf að byggja upp á Íslandi. Að setja sífellt fram ítrustu kröfur er ekki farsælasta lausnin við samningagerð. Við þurfum líka að fara að hugsa sem einn vinnumarkaður. Ég hvet háskólamenntaða starfsmenn til að láta í sér heyra. Við eigum að vera stolt af framlagi okkar til íslensks vinnumarkaðar, stolt af menntun okkar og fagmennsku. Við höfum verk að vinna!

Bragi Skúlason, Formaður Fræðagarðs