Fara í efni

Barlómur og væl í SNS!

Bragi Skúlason formaður Fræðagarðs
Bragi Skúlason formaður Fræðagarðs

Al­dís Haf­steins­dótt­ir, formaður stjórn­ar Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga benti á í opn­un­ar­ávarpi sínu á fjár­málaráðstefnu sveit­ar­fé­lag­ana á Hilt­on Reykja­vík Nordica í vikunni að mörg sveitarfélög standi vel en ekki öll. Forgangsraða þurfi verkefnum og mikilvægt sé að sveitarfélög sníði sér stakk eftir vexti.

Í ávarp­inu sagði Al­dís lík­ur benda til þess að fjár­hags­staða sveit­ar­fé­laga 2021 hafi farið versn­andi frá fyrra ári, m.a. vegna auk­inna launa­út­gjalda sem virðast vera langt um­fram tekju­aukn­ingu vegna út­svars. Nú standi enn og aft­ur yfir und­ir­bún­ing­ur kjaraviðræðna af hálfu Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga við fimm stétt­ar­fé­lög inn­an Kenn­ara­sam­bands Íslands og við fjög­ur stétt­ar­fé­lög inn­an Banda­lags há­skóla­manna. 

Aldís segir að „Hið op­in­bera eigi ekki að leiða launaþróun“.

Það er með góðum vilja alveg hægt að taka undir það með Aldísi að hið opinbera eigi ekki að leiða launaþróun. Þegar málið er skoðað er þó líklega ástæðulaust fyrir Aldísi að hafa svona miklar áhyggjur af því. Hið opinbera er ekki leiðandi í launaþróun. Mun eðlilegra er að líta svo á að opinberir aðilar, einkum ríkisstofnanir, séu virkir þátttakendur á samkeppni um hæft starfsfólk og þurfi því að elta eða fylgja hækkun launa á íslenskum vinnumarkaði almennt. Þegar vísitala neysluverðs hækkar og verðbólga eykst minnkar kaupmáttur fólks og hreyfing kemst á launahækkanir vinnumarkað. Það byrjar á einkamarkaði og fer svo yfir á aðra vinnumarkaði þegar hæft starfsfólks tekur að leita í þau störf sem bera með sér hærri laun.

Þegar kemur að sveitarfélögum eru þau hins vegar oftar en ekki á fákeppnismarkaði. Þau eru ein um að greiða laun til stórra hópa starfsmanna sem ekki ríkir samkeppni um og búa almennt ekki við þá stöðu að þurfa að keppa við einkamarkaðinn um hæft fólk. Má þar nefna rekstur öldrunarheimila, grunnskóla, leikskóla og í þjónustu við þá sem hafa langvarandi stuðningsþarfir. Að tala um að sveitarfélög séu leiðandi í þróun launa í þeim atvinnugeirum er hins vegar markleysa þar sem það er engin þróun launa annars staðar. Þá má benda á að Samband íslenskra sveitarfélaga var síðast á íslenskum vinnumarkaði til að taka upp lífskjarasamninga. Þau eru því vart leiðandi þar og hafa mörg hver raunar enn ekki uppfyllt þá, svo sem með tilliti til styttingar vinnuvikunnar sem var stórt atriði í síðustu kjarasamningum.

Hugsanlegt er að Aldís sé þarna að vísa í einhvers konar hugmyndafræði sem kalla mætti að vera „leiðandi í hlutfallslegri launaþróun“. Í ljósi þess að laun samkvæmt lífskjarasamningum hækkuðu í krónum talið, en ekki prósentum eins og eðlilegt er, urðu áhrifin af krónuhækkununum hlutfallslega meiri hjá þeim sem greiða lægstu launin. Þetta á þó ekki skylt við yfirlýsingar um að sveitarfélög séu leiðandi þegar kemur að launaþróun. Mun nærtækara væri að líta svo á að hlutfallslega há launaþróun hitti þá verst fyrir sem draga verulega lappirnar þegar kemur að launaþróun. Það er eftir sem áður svo, að launhækkanirnar í krónum talið voru ekki ýkja mikil búbót á tímabili sem spannar hátt í fjögur ár á sama tíma og verðbólga er eins há og raun ber vitni.

Raunar geta sveitarfélögin þakkað einkamarkaðnum fyrir að leiða launaþróun á landinu. Lífskjarasamningarnir svokölluðu voru leiddir áfram af aðilum á einkamarkaði af VR, ASÍ og SA. Þessir samningar töldust innibera hógværar hækkanir og samfara litlum hækkunum átti að bæta kjör fólks eftir öðrum leiðum. Riftun þessa samningsins var nýlega til umfjöllunar hjá ASÍ og SA vegna þess að hógværar hækkanir þóttu einungis forsvaranlegar í ljósi verðbólgumarkmiða Seðlabanka sem fyrir löngu eru sprungin. Það að formaður Sambandi íslenskra sveitarfélaga tali nú um of miklar launahækkanir ber ekki vott um að sveitarfélögin skilji fyllilega forsendur þeirra hófstilltu launahækkana sem VR, ASÍ og SA komu sér saman um í byrjun árs 2019 og voru látnar yfir alla ganga.

Í raun er það því betur lýsandi fyrir stöðu sveitarfélaganna að þau séu eftirbátar annarra þegar kemur að þróun launa. Svo mjög að erfiðismunir þeirra við að koma á lífskjarasamningnum voru meiri en annarra og það raunar svo miklir að um tíma leit út fyrir verkföll hjá Eflingu sem barðist fyrir launum lægst launauðu starfsmanna sveitarfélaganna. Sveitarfélögin voru síðust til að ganga frá meginþorra sinna samninga og meðallaun hjá sveitarfélögum eru þau lægstu á innlendum vinnumarkaði, opinberum og einkamarkaði.

Þá er mikilvægt að benda á það að hækkun launa á grundvelli kjarasamninga og launaþróun eru ekki sami hluturinn.

Hvort um sig hjá ríkinu og á einkamarkaði hækka laun fólks í takti við markaðsvirði starfa og þær hækkanir eru iðulega verulega umfram miðlægar kjarasamningsbundnar hækkanir. Hjá ríkinu er þetta gert eftir gegnsæjum og opinberum leiðum í gegnum stofnanasamninga byggt á kjarasamningsbundnum greinum. Sveitarfélög hafa ekki slíkar leiðir, enda er starfsmatið sem þau fara eftir langt frá því að ná utan um störf háskólamenntaðra sérfræðinga og grunnlaunaröðunin svo lág, að ein og sér myndi hún ekki duga til að halda sérfræðingum í starfi hjá þeim. Réttmætar og málefnalegar launhækkanir eru eingöngu gerðar á grunni miðlægra hækkana í gegnum kjarasamninga. Þær eru því eins og sakir standa mun lægri en þeirra aðila sem greiða laun samkvæmt markaðsvirði. Það er því engin innistaða fyrir verulegum áhyggjum formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga eins og sakir standa.

Áhyggjur Aldísar ættu í meira mæli að beinast að þjónustuhlutverki sveitarfélaga. Sveitarfélög eru rekin af íbúum þeirra. Tekjustofnar þeirra eru útsvar og fasteignaskattar. Þeim ber að þjónusta íbúa í sveitarfélögunum. Að leitast við að skerða stöðugt þjónustu í hagræðingarskyni og greiða ekki laun samkvæmt markaðsvirði kemur einungis niður á þjónustu þar sem hæft og nauðsynlegt starfsfólk fæst ekki til starfa. Fari íbúar sveitarfélaga að finna alvarlega fyrir skertri þjónustu í ljósi þeirrar háu gjaldtöku er sveitarfélögum fyrst orðinn vandi á höndum.

Hugsanlega ætti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga að axla ábyrgð og reyna að leiða stjórnir sveitarfélaga í átt að meiri þátttöku í þróun launa og leitist við að jafna laun starfsfólks sveitarfélaganna við laun starfsfólks á öðrum vinnumörkuðum.

Tekjustofnar sveitarfélaga vegna hækkandi fasteignagjalda og hækkandi útsvarstekjur þeirra með hærri launum hafa verið umtalsverð á undaförnum árum. Væl, barlómur aðhalds og hagræðingartal leggst því illa í þá sem greiða fé af launum sínum og skatt af fasteignum sínum til sveitastjórna sem enga skömm eiga, virðast ekki geta veitt þá þjónustu sem þeim er ætlað á sama tíma og þau eru mælanlega að greiða lægstu laun allra á íslenskum vinnumarkaði.

Sem betur fer á þetta ekki við um öll sveitarfélög. Sum þeirra sjá þó hið minnsta sóma sinn í því að greiða hærri laun en kjarasamningar sveitarfélaganna gera ráð fyrir. Fræðagarður samdi um samning til skemmri tíma síðast og samningur okkar rennur út um næstu áramót. Við sömdum við Samband íslenskra sveitarfélaga um bót á starfsmati, en þar á bæ er enginn vilji til að vinna þá samningavinnu sem samið var um í fyrra. Samband íslenskra sveitarfélaga vill engu breyta og háskólamenntaðir sérfræðingar eiga að sætta sig við bæklað starfsmatskerfi sem nær ekki utan um störf okkar. Síðan er viðkvæðið: "Computer says no!" Nóg er komið af ógegnsærri, ómálefnalegri og óréttmætrri launsetningu á grunni annarra launa eða óunninnar yfirvinnu. Allt í þágu þeirra sveitarfélaga sem stöðugt barma sér yfir þeirri áþján að þurfa að greiða laun sem fylgja íslenskum vinnumarkaði.

Ef sveitarfélögunum í landinu er alvara með því að veita góða þjónustu, þá dugar ekki endalaus hagræðing. Ef reksturinn gengur illa, þá þarf vissulega að sníða sér stakk eftir vexti. Það felur ekki í sér óbreytt ástand. Kannski þarf að sameina einhver sveitarfélög til að íbúar fái notið eðlilegrar þjónustu. Alla vega þarf að breyta launakerfinu. Við höfum í Fræðagarði verið tilbúin í það nokkuð lengi.