Nýr starfsmaður þjónustuskrifstofu
Gauti ráðinn verkefnastjóri samskipta og þjónustu
Þjónustuskrifstofa FHS hefur ráðið Gauta Skúlason í nýja stöðu verkefnastjóra samskipta og þjónustu. Gauti hefur undanfarin ár starfað sem ráðgjafi í þjónustuveri Bandalags háskólamanna þar sem hann hefur sérstaklega sinnt málefnum Orlofssjóðs BHM. Áður hefur Gauti meðal annars starfað við blaðamennsku, rannsóknarstörf í ferðaþjónustu auk þess að sitja í framkvæmdastjórn Landssamtaka íslenskra stúdenta. „Það er mikill fengur fyrir FHS-félögin að fá Gauta til starfa. Hann býr yfir góðri þekkingu á þjónustumálum stéttarfélaga og sjóða þeirra, auk kjara- og réttindamála. Framundan er spennandi vinna við stefnumótun og innleiðingu nýrra lausna í samskiptum og þjónustu við félagsmenn okkar,“ segir Georg Brynjarsson framkvæmdastjóri Þjónustuskrifstofu FHS.
Starfið var auglýst þann 7. nóvember og bárust 70 umsóknir. Umsóknarferlið var í höndum ráðningarstofunnar Vinnvinn. Gauti mun hefja störf fljótlega á nýju ári.