Beint í efni

Kjarasamningur við Samband íslenskra sveitarfélaga samþykktur

Félagsfólk í Fræðagarði hefur samþykkt kjarasamning við Samband ísenskra sveitarfélaga

Ágæti félagi

Í gær samþykktu félagar Fræðagarðs framlengingu á kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þessi framlenging tryggir félögum okkar sömu kjarabætur og annað starfsfólk sveitarfélaganna hefur þegar fengið á grundvelli lífskjarasamningsins. Eins og sakir standa var ekki fyrir hendi rými hjá sveitarfélögunum til að taka beint á þeim djúpstæða vanda sem er á launaumhverfi þeirra.

Í bókun með samningnum má finna viðurkenningu á sameiginlegri afstöðu okkar beggja, Fræðagarðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga, að launaumhverfi sveitarfélaganna nái illa utan um félaga Fræðagarðs sem starfa sem sérfræðingar og stjórnendur hjá þeim. Þessu þarf að breyta.

Í yfirlýsingu sem Fræðagarður sendi frá sér við undirritun kjarasamningsins 1. mars síðastliðinn bentum við á að sveitarfélögin séu að dragast hratt aftur úr í samkeppni um hæft sérfræðimenntað starfsfólk og að nauðsynlegt væri að treysta kjör þess með úrbótum á launaumhverfi sveitarfélaganna, svo sem með hækkun grunnlauna og fjölgun launaliða.

Það er deginum ljósara að ef sveitarfélög geta ekki gert nauðsynlegar úrbætur á launaumhverfi sínu þá eiga þau á hættu á að missa starfsfólk sem leitar á nýjan starfsvettvang þar sem menntun þeirra, ábyrgð og reynsla er metin að verðleikum.

Kjarasamningurinn sem félagsfólk Fræðagarðs samþykkti í gær er stutt framlenging á kjarasamningi aðila sem tryggir félagsfólki okkar hækkun launa um 25.000 krónur á mánuði. Kjarasamningar okkar við sveitarfélögin losna næst 31. mars 2023 og höfum við í Fræðagarði þegar hafið undirbúning að þeim viðræðum.

Við beinum því til sveitarstjórna og stjórnenda sveitarfélaganna að þau nýti þann stutta tíma sem fram er að næstu samningum vel, bretti upp ermar og geri raunhæfa áætlun til lausnar á þeim vanda sem sjá má á kjara- og launaumhverfi þeirra, lausnir sem við getum nýtt við samningaborðið á næsta ári.

Við í Fræðagarði erum ávallt reiðubúin til samvinnu og samninga um bætt vinnuumhverfi og bætt kjör launafólks. Við þurfum öll að vinna saman til að tryggja sanngjörn laun á öllum starfsvettvöngum.