Styrkir til atvinnulausra
Fræðagarður styður við bakið á félagsfólki sem er atvinnulaust og kýs að greiða félagsgjald af atvinnuleysisbótum til félagsins. Þá hafa atvinnulausir félagar einnig aðgang að sjóðum BHM ef greitt er félagsgjald af atvinnuleysisbótum til Fræðagarðs.
Styrkur Fræðagarðs
Atvinnulaust félagsfólk sem greiðir iðgjöld til Fræðagarðs af atvinnuleysisbótum getur sótt um styrk fyrir allt að 100.000 kr. á ári til að sækja endurmenntun eða sjálfsstyrkingu að eigin vali. Skrifstofa Fræðagarðs tekur á móti umsóknum og afgreiðir þær en hægt er að senda inn umsókn með því að senda inn fyrirspurn í gegnum vef Fræðagarðs. Athugið að styrkgreiðslur eru greiddar beint til framkvæmdaaðila.
Réttindi atvinnulausra í sjóðum BHM
Atvinnulausir halda réttindum í sjóðnum í eitt ár í beinu framhaldi af fullri sjóðsaðild. Þetta gildir ef bótatímabil hefst eða útgjöld eiga sér stað innan árs frá upphafi atvinnuleysis, svo fremi að frá upphafi sé greitt félagsgjald af atvinnuleysisbótum til viðkomandi stéttarfélags. Stéttarfélögum er heimilt að lengja þetta tímabil svo lengi sem sjóðfélagi þiggur greiðslur atvinnuleysisbóta frá Atvinnuleysistryggingasjóði, enda bera þau ábyrgð á greiðslu 1,0% iðgjalds af atvinnuleysisbótum til sjóðsins frá upphafi atvinnuleysistímabils. Stéttarfélög skulu tilkynna sjóðnum um að þau ætli sér að nýta þessa heimild og í hve langan tíma. Hafi atvinnulaus einstaklingur ekki sjóðsaðild getur hann fengið aðild og öðlast réttindi í sjóðnum sé greitt félagsgjald af atvinnuleysisbótum til viðkomandi stéttarfélags sem ber ábyrgð á greiðslu 1,0% iðgjalds af atvinnuleysisbótum til sjóðsins. Ávinnsla réttinda er þá með sama hætti og ávinnsla annarra samkvæmt reglum sjóðsins. Stéttarfélög skulu tilkynna sjóðnum um að þau ætli sér að nýta þessa heimild.
Einstaklingar með full réttindi við upphaf atvinnuleysis halda réttindum sínum í eitt ár, enda hefjist bótatímabil eða til útgjalda sé stofnað innan árs frá upphafi atvinnuleysis. Skilyrði er að greitt sé stéttarfélagsgjald til viðkomandi stéttarfélags. Stéttarfélögum er heimilt að lengja þetta tímabil svo lengi sem félagsmaður þiggur greiðslur frá Vinnumálastofnun enda beri þau ábyrgð á greiðslu 0,75% iðgjalds til sjóðsins af atvinnuleysisbótum frá upphafi atvinnuleysistímabils. Stéttarfélögin skulu tilkynna sjóðnum fyrir hvaða sjóðfélaga þau greiða inn fyrir.
Atvinnulausir félagar geta greitt árgjald til þess að viðhalda sjóðsaðild og fá við greiðslu 48 punkta. Skila þarf staðfestingu frá Vinnumálastofnun um að félagi sé á atvinnuleysisskrá. Til þess að greiða árgjaldið er hægt að senda tölvupóst á sjodir@bhm.is
Félagar sem eru atvinnulaus geta sótt um og fengið styrk úr sjóðnum samkvæmt eftirfarandi reglum
a. Skilyrði
Umsækjandi skal hafa átt aðild að sjóðnum í a.m.k. sex mánuði við upphaf atvinnuleysis, að ekki séu liðinir 12 mánuðir síðan viðkomandi missti vinnuna og að viðkomandi hafi greitt félagsgjald í stéttarfélag af atvinnuleysisbótum. Stéttarfélögum er heimilt að lengja þetta tímabil í allt að þrjú ár greiði þau 0,22% ðgjald af atvinnuleysisbótum til sjóðsins frá upphafi atvinnuleysis.
b. Styrkhæfi
Sótt sé um styrk til endurmenntunar eða símenntunar samkvæmt því sem metið er styrkhæft fyrir aðra sjóðfélaga eða styrk til námskeiðs sem tengist beinlínis atvinnuleysi sjóðfélaga.
c. Ferill umsókna
Um form og afgreiðslu umsókna atvinnulausra gilda að öðru jöfnu sömu starfsreglur og um sjóðfélaga og styrkveitingar til þeirra.
Við atvinnumissi heldur félagsfólk réttindum í allt að 12 mánuði. Stéttarfélögum er heimilt að framlengja þetta tímabil upp í 3 ár gegn því að greiða 0,7% iðgjald til STH af atvinnuleysisbótum frá upphafi atvinnuleysis.
Aðstoð Fræðagarðs
Ef þú ert enn með spurningar sem ekki er svarað hér fyrir ofan hvetjum við þig til að hafa samband við skrifstofu Fræðagarðs.
Þú getur sent inn fyrirspurn, til dæmis varðandi réttindi atvinnulausra félaga.
Þú getur líka stofnað formlega þjónustubeiðni sem fer sjálfkrafa inn í málaskrár kerfi okkar, til dæmis vegna umfangsmikilla eða viðkvæmra erinda
Loks má bóka símtal við sérfræðing, ef þú heldur að það eigi betur við.
Þjónustuskrifstofa Fræðagarðs er til húsa í Borgartúni 6 (sama húsi og BHM). Hún er opin alla virka daga frá kl. 9-12 og 13-16. Síminn er 595 5165.