Stefnumótun Fræðagarðs
Stjórn Fræðagarðs fór á árinu í stefnumótunarvinnu til að móta framtíðarsýn félagsins og starf næstu misserin.
Guðrún Ragnarsdóttir hjá Strategíu var fengin til að halda utan um stefnumótunarfundi stjórnar og starfsfólks Fræðagarðs á haustmánuðum 2022. Markmiðið með verkefninu var að skýra betur gildi Fræðagarðs, hlutverk og framtíðarsýn.
Í kjölfarið vann formaður að aðgerðaráætlun stjórnar og starfsáætlun félagsins í samvinnu með Guðrúnu sem markar leið félagsins næstu misseri.
Stjórn félagsins samþykkti í nóvember 2022 uppfærða skilgreiningu á hlutverki, framtíðarsýn og gildum Fræðagarðs.
Hlutverk Fræðagarðs er að vera í forsvari fyrir félagsfólk varðandi kjör og réttindi þeirra.
Framtíðarsýn Fræðagarðs er að vera virkur þátttakandi í uppbyggingu vinnumarkaðar og betra samfélagi.

Gildi Fræðagarðs
Gildi Fræðagarðs eru framsýni, jafnrétti og ábyrgð.
Fræðagarður sýnir framsýni í verki með því að:
- Eiga gott samtal við félagsfólk, aðila vinnumarkaðarins, menntastofnanir og sambærileg félög hér á landi og erlendis um framtíðarvinnumarkað og -samfélag.
- Fylgjast náið með stefnum og straumum jafnt á vinnumarkaði sem í samfélagsumræðu hverju sinni og setja sér markmið í samræmi við þær.
- Sækja sér nýjustu þekkingu hér á landi og erlendis á sviði kjaramála og réttinda.
Fræðagarður vinnur að jafnrétti með því að:
- Hafa jafnrétti í víðum skilningi að leiðarljósi í öllu sínu starfi og ákvarðanatöku. Öll eru velkomin í félagið og starfsemi þess.
- Berjast fyrir bættum kjörum félagsfólks án tillits til kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, tungumáls, fötlunar, starfsgetu, trúar, lífsskoðunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna, kyntjáningar, stjórnmálaskoðunar, stéttar, líkamsgerðar, heilsufars eða annarrar stöðu.
- Vinna markvisst að bættri stöðu kvenna, útrýmingu kynbundins kjaramisréttis og jöfnun á ólaunaðri ábyrgð og starfi í heimilis- og fjölskylduhaldi.
Fræðagarður sýnir ábyrgð í starfi með því að:
- Veita félagsfólki góða þjónustu og stuðning í sínum málum og styrkja og valdefla starfsfólk og fólk sem kosið er til trúnaðarstarfa.
- Setja sér starfsreglur, verklag og verkferla sem eru endurskoðuð reglulega og taka á öllum málum sem koma upp innan félagsins á faglegan hátt.
- Vera ábyrgt stéttarfélag með skýra stefnu í jafnréttis- og umhverfismálum.