Lög Fræðagarðs
I. Félagið
1. grein. Nafn félagsins
Heiti félagsins er Fræðagarður, skammstafað FRG. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein. Hlutverk og tilgangur
Fræðagarður er stéttarfélag og fer með umboð félagsfólks í kjara- og réttindamálum gagnvart launagreiðendum og öðrum.
Tilgangur Fræðagarðs er að:
• Vinna að bættum kjörum félagsfólks og gæta hagsmuna þess í kjara- og réttindamálum.
• Standa vörð um réttindi félagsfólks á vinnumarkaði, upplýsa þau um réttindi þeirra og skyldur og koma fram fyrir þeirra hönd eftir atvikum
• Stuðla að öryggi félagsfólks á vinnustað í samráði við þar til bærar stofnanir
• Efla félagsfólk á vinnumarkaði
• Rækta samstarf við innlend og erlend stéttarfélög og stofnanir sem fjalla um málefni tengd hagsmunum félagsfólks.
3. grein. Heildarsamtök
Fræðagarður á aðild að Bandalagi háskólamanna – BHM.
II. Félagsaðild og félagsgjöld
4. grein. Félagsaðild
Félagar geta þau orðið sem lokið hafa eða eru í háskólanámi eða sambærilegu námi og þau sem gegna sérfræðistörfum sem krefjast þekkingar sem alla jafnan er á háskólastigi.
Félagar hafa eftirfarandi réttindi:
• Aðgengi að þjónustu félagsins
• Þátttaka í félagsstarfi félagsins
• Málfrelsi á fundum félagsins
• Tillögurétt á fundum félagsins
• Atkvæðisrétt í kosningum meðal félaga
• Kjörgengi þegar kosið er í stöður innan félagsins
5. grein. Félagsgjöld
Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi og er félagsfólki skylt að greiða þau. Skriflegar tillögur félagsfólks um breytingar á félagsgjöldum skulu berast stjórn eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir aðalfund og skulu birtar á vef félagsins með endanlegri dagskrá.
6. grein. Aðildarumsókn
Félagsaðild öðlast gildi þegar félagsgjöld hafa verið greidd. Háskólanemar sem ekki er launafólk á meðan námi stendur geta sótt um aðild að félaginu. Skrifstofa félagsins afgreiðir umsóknir.
7. grein. Úrsögn
Félagsaðild fellur að jafnaði úr gildi þremur mánuðum eftir að greiðslur félagsgjalda hætta að berast félaginu nema sýnt sé fram á að um tímabundið ástand sé að ræða, s.s. vegna fæðingaorlofs, launalauss leyfis eða sambærilegs. Eftir að vinnustöðvun hefur verið boðuð hjá launagreiðanda viðkomandi félaga telst félagsaðild hans þó engu að síður virk þar til vinnustöðvun hefur verið aflýst.
Stjórn getur vikið félaga úr félaginu ef hann hefur misnotað nafn þess eða unnið gegn hagsmunum þess með öðrum hætti. Viðkomandi getur þá skotið málinu til félagsfundar sem skal úrskurða í málinu innan fjögurra vikna frá brottvikningu.
III. Aðalfundur
8. grein. Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfund skal halda fyrir lok apríl ár hvert og skal til hans boðað með minnst 14 daga fyrirvara á vef félagsins og með tölvupósti til félagsfólks. Fundurinn telst löglegur ef löglega er til hans boðað.
Tillögur stjórnar fyrir aðalfund skulu að jafnaði kynntar í fundarboði með minnst 14 daga fyrirvara. Skriflegar tillögur félagsfólks fyrir aðalfund skulu hafa borist stjórn eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir fundinn og skulu birtar á vef félagsins með endanlegri dagskrá.
Stjórn getur ákveðið að aðalfundur fari fram sem staðfundur, fjarfundur eða sem bæði stað- og fjarfundur og skal þess þá getið í fundarboði. Ef aðalfundur er haldinn að einhverju leyti sem fjarfundur, skulu atkvæðagreiðslur og samþykktir fara fram rafrænt.
Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti í öllum málum nema þegar breyta á lögum félagsins, sbr. 20. grein. Atkvæðisrétt á aðalfundum hefur félagsfólk í Fræðagarði.
Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirfarandi liðir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar kynnt
3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar, sbr. 16. grein
4. Ákvörðun um félagsgjöld, sbr. 5. grein
5. Kosning í stjórnir kjaradeilda, sbr. 11 grein
6. Lagabreytingar, sbr. 20. grein
7. Niðurstöður úr rafrænum kosningum til formanns, varaformanns og stjórnar kynntar, sbr. 9. grein
8. Önnur mál
Stjórn er heimilt að bæta við dagskrárliðum.
9. grein. Kosningar til trúnaðarstarfa
Stjórn skipar fjóra fulltrúa í kjörstjórn eigi síðar en 12 vikum fyrir aðalfund. Kjörstjórn skal skipuð þremur fulltrúum og einum til vara sem ekki eru í stjórn félagsins eða í framboði til stjórnarsetu í félaginu. Kjörstjórn starfar sjálfstætt og hefur fjárhagslegt sjálfstæði. Kjörstjórn skiptir með sér verkum og setur sér verklagsreglur.
Kjörstjórn auglýsir eftir framboðum til stjórnar fyrir aðalfund félagsins og hefur umsjón með undirbúningi og framkvæmd kosninga. Kjörstjórn sker úr um kjörgengi og kosningarétt, hefur yfirumsjón með talningu atkvæða og sker úr um gildi vafaatkvæða. Ákvarðanir kjörstjórnar eru endanlegar.
Kosningar til trúnaðarstarfa innan félagsins skulu vera rafrænar og skal opna fyrir þær minnst sjö dögum fyrir aðalfund. Niðurstöður kosninga skulu kynntar á aðalfundi. Fari kosningar formanns og varaformanns fram á undan öðrum kosningum til aðalfundar skulu niðurstöður kynntar þegar atkvæði hafa verið talin.
Formann og varaformann skal kjósa sérstaklega en ekki sama ár. Stjórnarfulltrúar og varaformaður skulu kosnir til tveggja ára í senn, en formaður til fjögurra ára. Auk þeirra skal kjósa tvo varafulltrúa til eins árs. Enginn skal sitja lengur en átta ár samfellt í stjórn. Fyrri störf formanns og varafulltrúa í stjórn skulu þó undanskilin. Formaður skal sitja tvö heil kjörtímabil samfellt að hámarki.
Hætti formaður á tímabili sínu skal efna til rafrænnar kosningar nýs formanns til loka kjörtímabils. Varaformaður tekur sæti formanns þar til að kosningu lýkur. Hætti varaformaður á tímabili sínu skal efna til rafrænnar kosningar til nýs varaformanns til loka kjörtímabils. Stjórn velur nýjan varaformann þar til að kosningu lýkur. Niðurstöður formanns- og varaformannskosninga skulu kynntar þegar atkvæði hafa verið talin og á næsta aðalfundi.
Verði niðurstaða kosninga sú að tveir eða fleiri frambjóðendur hafa fengið jafn mörg atkvæði skal kosið á milli þeirra á aðalfundi.
10. grein. Aukaaðalfundir
Stjórn er heimilt að boða til aukaaðalfunda.
IV. Félagsstarf
11. grein. Skipulag
Stjórn
Stjórn Fræðagarðs skal skipuð sjö félögum og tveimur til vara. Stjórn skiptir með sér verkum og setur sér starfsreglur. Formaður getur boðað varafulltrúa til þátttöku í starfi stjórnar og hefur hann þá málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema ef aðalfulltrúi forfallast.
Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda og er málsvari þess. Hún gætir þess að lögum og samþykktum félagsins sé framfylgt, fer með umboð félagsins til kjarasamninga og hefur eftirlit með því að þeir séu virtir.
Formaður er talsmaður félagsins. Formaður boðar stjórnarfundi eins oft og þörf krefur, að jafnaði mánaðarlega, og stýrir þeim. Dagskrá skal fylgja fundarboði. Boða skal fund ef a.m.k. einn stjórnarfulltrúi óskar þess og skal hann þá haldinn innan viku. Fundir stjórnar eru lögmætir ef meirihluti fulltrúa mætir og ræður meirihluti greiddra atkvæða niðurstöðu mála. Falli atkvæði á jöfnu skal atkvæði formanns ráða. Stjórn setur formanni starfslýsingu.
Stjórn ber ábyrgð á fjármálum og rekstri félagsins. Ákvarðanir stjórnar skulu bókaðar í fundargerð sem stjórn undirritar.
Stjórn er heimilt að standa fyrir rafrænum kosningum, t.d. atkvæðagreiðslum um kjarasamninga.
Kjaradeildir
Félagsfólki er heimilt að leggja fyrir aðalfund að stofnuð verði kjaradeild tengd fagsviði, starfsvettvangi eða landsvæði, til að fjalla um réttindi og kjör félagsfólks á sínu sviði, standa fyrir fræðslu og vera stjórn félagsins til ráðgjafar. Skriflegar tillögur félagsfólks um stofnun kjaradeildar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir aðalfund og skulu birtar á vef félagsins.
Á fyrsta fundi kjaradeildar eftir aðalfund Fræðagarðs skal deildin kjósa sér formann og tvo fulltrúa í stjórn kjaradeildar til eins árs.
Kjaradeildir vinna að því að allt félagsfólk sem til þess hefur rétt eigi aðild að deildinni. Kjaradeildir bera ábyrgð á innra skipulagi sínu og setja sér starfsreglur sem skulu staðfestar af stjórn Fræðagarðs. Skrifstofa Fræðagarðs heldur utan um félagatal og önnur gögn kjaradeilda.
Kjaradeildir fylgjast með því að kjarasamningar á sínu sviði séu virtir og veitir stjórn Fræðagarðs aðstoð við söfnun gagna og upplýsinga um kjör og stöðu félagsfólks. Þær vinna að framgangi sinna stétta og stuðla að aukinni þekkingu og framþróun á sínu sviði. Stjórn Fræðagarðs er heimilt að veita kjaradeild samningsumboð fyrir viðeigandi fagsvið, starfsvettvang eða landsvæði.
Stjórn Fræðagarðs getur styrkt starf kjaradeilda fjárhagslega en þeim er ekki heimilt að skuldbinda félagið fjárhagslega. Kjaradeildum er skylt að skila stjórn Fræðagarðs skýrslu um starfsemi sína fyrir lok febrúar ár hvert. Skili kjaradeild ekki skýrslu tvö ár í röð getur aðalfundur ákveðið að leggja hana niður.
Formaður Fræðagarðs er talsmaður kjaradeildar nema stjórn félagsins ákveði annað.
Faghópar
Félagsfólki er heimilt að leggja fyrir stjórn Fræðagarðs að stofnaður verði faghópur til að vinna að framgangi sinna fagstétta og stuðla að aukinni þekkingu og framþróun hver á sínu sviði.
Faghópar bera ábyrgð á innra skipulagi sínu, starfa í samræmi við starfsreglur sem stjórn Fræðagarðs setur þeim og eru stjórn til ráðgjafar. Faghópar gæta þess að allt félagsfólk sem til þess hefur rétt eigi kost á að taka þátt í starfsemi hópsins.
Stjórn Fræðagarðs getur styrkt starf faghópa fjárhagslega en þeim er ekki heimilt að skuldbinda félagið fjárhagslega. Sendi faghópur ekki fulltrúa á fulltrúaráðsfund tvö ár í röð, getur stjórn Fræðagarðs ákveðið að leggja faghóp niður.
Formaður Fræðagarðs er talsmaður faghópa nema stjórn félagsins ákveði annað.
Fulltrúaráð
Innan Fræðagarðs starfar fulltrúaráð sem er skipað formanni og fulltrúum starfandi kjaradeilda og faghópa innan félagsins. Fulltrúaráð er stjórn félagsins til ráðgjafar í stefnumótandi málum og kemur saman minnst einu sinni á ári.
12. grein. Trúnaðarmenn
Trúnaðarmenn félagsins eru kjörnir á vinnustöðum sbr. 5. kafla laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og 9.–12. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.
13. grein. Félagsfundir
Stjórn boðar almennan félagsfund þegar tilefni gefst til, staðfund, fjarfund eða blöndu af þessu tvennu.
Almenna félagsfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir og alltaf ef 150 félagar krefjast þess. Félagsfundir skulu boðaðir með minnst þriggja daga fyrirvara á vef félagsins og með tölvupósti til félagsfólks. Efni fundarins skal fylgja fundarboði.
Á félagsfundum ræður einfaldur meirihluti í öllum málum. Atkvæðisrétt á félagsfundum hefur félagsfólk í Fræðagarði.
V. Fjármál og rekstur félagsins
14. grein. Ábyrgð stjórnar
Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjármálum og rekstri félagsins. Ákvarðanir um óregluleg og meiriháttar útgjöld og fjárhagslegar skuldbindingar fyrir félagið skulu teknar til formlegrar afgreiðslu á stjórnarfundum. Stjórn skal setja félaginu fjárfestingarstefnu.
15. grein. Skrifstofa félagsins
Stjórn er heimilt að gera samning um rekstur skrifstofu til að sinna þjónustu við félagsfólk í samstarfi við önnur félög innan BHM. Formaður félagsins skal sitja í stjórn skrifstofunnar og fara þar með umboð stjórnar.
16. grein. Ársreikningar
Fjárhagsár ársreikninga skal miðast við almanaksár og skal stjórn fela löggiltum endurskoðanda, sem er óháður félaginu, að endurskoða reikninga þess.
Endurskoðaða ársreikninga skal leggja fram á aðalfundi áritaða af endurskoðanda, stjórn og framkvæmdastjóra félagsins.
VI. Kjarasamningar og meðferð þeirra
17. grein. Samninganefndir
Stjórn félagsins er jafnframt aðalsamninganefnd þess og er formaður jafnframt formaður hennar nema stjórn ákveði annað. Stjórn er heimilt að kveðja annað fólk til setu í samninganefndum.
Verkefni samninganefnda eru að:
• Undirbúa og samþykkja kröfugerð félagsins vegna kjarasamningsviðræðna
• Taka ákvörðun um það hvort leitað skuli eftir samþykki félagsfólks til verkfallsboðunar
• Vera stjórn félagsins til ráðgjafar um kjaraatriði og túlkun kjarasamninga.
Verði ágreiningur í samninganefnd um tiltekið mál skal greiða atkvæði um það og ræður meirihluti atkvæða úrslitum. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns samninganefndar.
Samninganefndir hafa umboð til að gera kjarasamninga í nafni félagsins með fyrirvara um samþykki félagsfólks sem á aðild að viðkomandi samningi.
18. grein. Atkvæðagreiðsla um kjarasamninga
Stjórn skal kynna gerðan kjarasamning því félagsfólki sem samningurinn nær til og standa fyrir atkvæðagreiðslu um hann. Þá skal félagsfólk velja á milli þess að samþykkja eða hafna kjarasamningi og ræður meirihluti atkvæða niðurstöðunni. Rafræn atkvæðagreiðsla skal vera jafngild atkvæðagreiðslu á félagsfundi.
19. grein. Boðun verkfalla
Tillaga um boðun verkfalls skal borin undir atkvæði félagsfólks sem málið varðar og ræður meirihluti greiddra atkvæða úrslitum. Stjórn skal setja verklagsreglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu um verkföll.
VII. Lagabreytingar
20. grein. Lagabreytingar
Lögum þessum má aðeins breyta með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.
Tillögur stjórnar að lagabreytingum skulu kynntar í fundarboði með minnst 14 daga fyrirvara.
Skriflegar tillögur félagsfólks um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir aðalfund og skulu birtar á vef félagsins með endanlegri dagskrá.
VIII. Slit félagsins
21. grein. Félagsslit
Félaginu verður aðeins slitið með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi og skal þá skipuð félagsslitanefnd sem tekur ákvörðun og sér um ráðstöfun eigna félagsins.
IX. Ákvæði til bráðabirgða
22. grein. Kjörtímabil stjórnarfólks
Ákvæði í 4. málslið 4. mgr. 9. gr., um hámarkslengd stjórnarsetu, skal einnig gilda fyrir fólk sem kjörið var í stjórn félagsins fyrir gildistöku þessara laga.
Samþykkt á aðalfundi Fræðagarðs þann 28. febrúar 2023.