Beint í efni

Lög Fræðagarðs

1. gr. Nafn félagsins og tilgangur

Heiti félagsins er Fræðagarður, skammstafað FRG. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæðið tekur til landsins alls. Félagið er sjálfstætt starfandi stéttarfélag. Félagið er aðili að samtökum háskólamenntaðra launþega eða öðrum stéttarsamtökum. Ákvarðanir um slíka aðild skulu afgreiddar á aðalfundi félagsins.

2. gr. Hlutverk

Hlutverk félagsins er:

· Að fara með samningsumboð fyrir félagsmenn gagnvart atvinnurekendum þeirra

· Að standa vörð um réttindi félagsmanna á vinnumarkaði

· Að upplýsa félagsmenn um réttindi þeirra og skyldur

· Að vinna að öryggi félagsmanna á vinnustað í samráði við þar til bærar stofnanir

· Að stuðla að samstarfi við innlend og erlend stéttarfélög og stofnanir sem fara með og fjalla um málefni tengd starfi þeirra.

3. gr. Almenn félagsaðild

Fullgildir félagar geta þeir orðið sem lokið hafa BA eða BS prófi, eða ígildi þess, frá viðurkenndum háskóla. Félagsaðild er óháð starfsvettvangi, atvinnurekanda eða ráðningarformi.

Fullgilda félagsaðild hafa aðeins þeir félagar sem greiða gjöld til félagsins og hafa fengið staðfestingu þess efnis. Starfsmenn Fræðagarðs, starfsmenn samstarfsaðila og sjóða sem Fræðagarður á aðild að, geta orðið fullgildir félagar án tillits til háskólamenntunar.

4. gr. Félagsaðild háskólanema

Nemar sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) í háskólanámi, geta sótt um nemaaðild.

Nemaaðild gefur rétt til þátttöku í félagsstarfi Fræðagarðs, meðal annars fræðslu- og ráðstefnustarfi, veitir málfrelsi og tillögurétt á félagsfundum.

Greiði háskólanemar félagsgjald af launum á námstímanum fá þeir fulla aðild að félagi og sjóðum tengdum því.

Nemaaðild getur aldrei varað lengur en í samtals fjögur ár.

5. gr. Aðildarumsókn

Umsóknir um félagsaðild skulu vera formlegar og staðfesting á lúkningu náms frá viðurkenndum háskóla skal fylgja umsókn. Stjórn félagsins tekur aðildarumsóknir til umfjöllunar á formlegum stjórnarfundum. Svar við aðildarumsókn skal berast umsækjanda innan tveggja mánaða.

6. gr. Úrsögn almennra félaga

Þegar greiðslur hætta að berast félaginu verður félagsmaður óvirkur og ekki lengur félagsmaður í Fræðagarði. Ef greiðslur hætta að berast eftir að vinnustöðvun hefur verið boðuð hjá atvinnurekanda viðkomandi félagsmanns eða á meðan á vinnustöðvun stendur telst hann virkur félagi.

7. gr. Aðalfundir

Aðalfundur Fræðagarðs hefur æðsta vald í öllum málum félagsins. Aðalfund skal halda í febrúar ár hvert. Stjórn getur ákveðið að skipuleggja staðarfund, rafrænan fund, eða blöndu af þessu tvennu. Boðun á aðalfund skal send með rafrænum hætti til félagsmanna með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Fundarboð skulu birt á vefsíðu Fræðagarðs og/eða send með rafpóstitil félagsmanna.

Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Heimilt er að flýta aðalfundi ef þess er talin þörf og er hann löglegur ef hann er boðaður með löglegum fyrirvara.

Tillögur og/eða ályktanir sem félagsmenn óska eftir að taka til afgreiðslu á aðalfundi skulu liggja fyrir stjórn félagsins eigi síðar en sjö dögum fyrir boðaðan aðalfund. Slíkar tillögur skulu tilgreindar í gögnum aðalfundar.

Á aðalfundi skulu jafnan tekin fyrir þessi mál:

1. Fundarsetning

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

3. Skýrsla stjórnar

4. Ársreikningar félagsins lagðir fram

5. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga

6. Lagabreytingar

7. Fjárhagsáætlun og ákvörðum um félagsgjöld

8. Rafræn kosning til stjórnar. Niðurstöður kynntar:

a. Kosning formanns fjórða hvert ár

b. Kosning varaformanns annað hvert ár

c. Kosning tveggja til þriggja aðalmanna til tveggja ára

d. Kosning tveggja varamanna til eins árs

9. Önnur mál.

Stjórn er heimilt að bæta við dagskrárlið um afmörkuð hagsmunamál og/eða ávörp gesta. Kanna skal í upphafi aðalfundar hvort allir aðalfundarmenn eru fullgildir meðlimir í Fræðagarði.

8. gr. Stjórn Fræðagarðs

Stjórn félagsins skal skipuð sjö fullgildum félagsmönnum, löglega kjörnum í rafrænni kosningu sem fram fer fyrir aðalfund.

Stjórn er heimilt að standa fyrir rafrænni kosningu, hvort sem um er að ræða kjör til stjórnar eða atkvæðagreiðsla um kjarasamninga.

Formaður og varaformaður eru kjörnir sérstaklega, en ekki sama ár. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn, en formaður til fjögurra ára. Auk þeirra skal kjósa tvo varamenn til eins árs. Leitast skal við að tryggja að aldrei hætti nema þrír stjórnarmenn á tilteknu ári.

Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur í stjórn en átta ár í senn. Fyrri störf formanns í stjórn Fræðagarðs skulu þó undanskilin.

Stjórn félagsins ber ábyrgð á rekstri félagsins, skrifstofuaðild og fjársýslu. Stjórnin tekur ákvarðanir varðandi rekstur skrifstofu félagsins og ræður starfsmenn. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri skrifstofunnar.

Stjórn félagsins skal halda stjórnarfund að minnsta kosti mánaðarlega nema í júlímánuði. Formaður boðar fundi með dagskrá með tilskyldum fyrirvara og stýrir fundum stjórnar. Fundargerðir stjórnar skulu skráðar á fundinum og samþykktar í lok fundar.

Formaður eða varaformaður í forföllum formanns skal boða til stjórnarfundar ef tveir eða fleiri stjórnarmenn óska þess.

Stjórnin skal kappkosta að miðla upplýsingum um verkefni félagsins til félagsmanna þannig að þeir geti jafnan fylgst með framgangi og stöðu mála er varða hagsmuni þeirra.

Stjórn félagsins fer með umboð félagsins til kjarasamninga.

9. gr. Kjörstjórn

Stjórn skipar kjörstjórn og formann hennar eigi síðar en 31. desember ár hvert. Kjörstjórn skal skipuð þremur mönnum og einum varamanni sem ekki eru í stjórn félagsins eða í framboði til stjórnarsetu í félaginu.

Kjörstjórn tekur við framboðum til stjórnar eða nefndarsetu fyrir aðalfund. Áður en boðað er til aðalfundar skal auglýsa eftir framboðum og öll framboð skulu koma fram í aðalfundarboði. Ekki er gert ráð fyrir öðrum framboðum á aðalfundi en þeim sem koma fram í aðalfundarboði, nema ef frambjóðendur eru ekki nógu margir til að manna trúnaðarstöður.

Kjörstjórn skal hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd kosninga, skera úr um kjörgengi og kosningarétt, hafa yfirumsjón með talningu atkvæða og skera úr um gildi vafaatkvæða. Verði niðurstaða kosninga sú, að tveir eða fleiri frambjóðendur séu jafnir, þá skal hlutkesti ráða.

Kosning skal vera rafræn og skal opna fyrir rafræna kosningu a.m.k. sjö dögum fyrir aðalfund. Niðurstöður kosninga skulu kynntar á aðalfundi. Fari kosning formanns og varaformanns fram á undan öðrum kosningum til aðalfundar skulu niðurstöður kynntar þegar atkvæði hafa verið talin.

10. gr. Fulltrúaráð

Innan Fræðagarðs starfar fulltrúaráð sem er skipað stjórn og fulltrúum formlegra faghópa á vegum félagsins. Fulltrúar faghópa eru stjórn félagsins til ráðgjafar í stefnumótandi málum og kemur saman a.m.k. tvisvar á ári.

11. gr. Almennir félagsfundir

Stjórn boðar almenna félagsfundi þegar tilefni gefst til. Slíka fundi má halda utan höfuðborgarsvæðisins í samvinnu við félaga í þeim landshlutum eða með fjarfundabúnaði.

Almenna félagsfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Skulu þeir boðaðir með tryggilegum hætti.

Heimild til boðunar verkfalls skal borin undir atkvæði allra félagsmanna sem málið varðar og meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum í þeirri atkvæðagreiðslu til að ákvörðun teljist fullgild.

12. gr. Trúnaðarmenn

Trúnaðarmenn skulu starfa á vegum félagsins, sbr. lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Þeir skipa trúnaðarmannaráð sem er stjórn og/eða samninganefnd félagsins til aðstoðar við mótun samningastefnu og annast eftirlit með framkvæmd kjarasamninga.

13. gr. Atkvæðagreiðslur og fundarsköp

Atkvæðisrétt á aðalfundum og almennum félagsfundum og rétt til setu í stjórn hafa þeir félagsmenn sem eru fullgildir félagar. Skrá yfir fullgilda félaga skal liggja fyrir a.m.k. þremur mánuðum fyrir aðalfund.

Meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum við kosningar og afgreiðslu almennra mála. Um fundarsköp funda FRG gilda almennar reglur um fundarsköp.

14. gr. Fjármál

Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjármálum og öllum rekstri félagsins. Allar ákvarðanir um óregluleg útgjöld og fjárhagslegar skuldbindingar fyrir félagið skulu teknar til formlegrar afgreiðslu á stjórnarfundum.

Fjárhagsár ársreikninga skal miðast við almanaksár og skal stjórn láta endurskoða reikninga félagsins.

Endurskoðaða ársreikninga skal leggja fram á aðalfundi áritaða af endurskoðanda, stjórn og framkvæmdastjóra.

Ársreikninga skal leggja fram til skoðunar á síðasta stjórnarfundi fyrir aðalfund og skýrðir af gjaldkera. Þeir skulu lagðir fram á aðalfundi áritaðir af endurskoðendum, stjórn og framkvæmdastjóra.

15. gr. Félagsgjöld

Félagsgjöld almennra félaga og nema skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert.

Hafi greiðandi félagsgjalds ekki sótt formlega um aðild að félaginu, innan tveggja ára frá því er fyrsta greiðsla berst félaginu, getur stjórn félagsins hafnað móttöku frekari greiðslu af hálfu greiðanda. Greiðandi félagsgjalda á ekki rétt til endurgreiðslu á þegar mótteknum félagsgjöldum við slíkar aðstæður.

16. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi með 2/3 greiddra atkvæða. Tillögur stjórnar til lagabreytinga skulu kynntar í fundarboði með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara.

17. gr. Slit félagsins

Félaginu verður því aðeins slitið, að félagsslitin séu samþykkt á sama hátt og gildir um lagabreytingar. Félagsslitafundur tekur ákvörðun um ráðstöfun eigna félagsins.

Lög samþykkt á aðalfundi 28. febrúar 2022