Fara í efni

Kynning á frambjóðendum til formanns

Hér má sjá kynningu á frambjóðendum til formanns Fræðagarðs. 

Rafræn kosning um formannsembættið hefst þann 26. janúar og lýkur á miðnætti þann 30. janúar. Niðurstöðurnar úr formannskjörinu verða svo kynntar fyrstu vikuna í febrúar.

Nú er einnig opið fyrir framboð til stjórnar Fræðagarðs en þau þurfa að berast á tímabilinu 14. janúar til og með 28. janúar á tölvupóstfangið fraedagardur@fraedagardur.is.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Bragi Skúlason

Kæru félagar í Fræðagarði.

Fræðagarður er sérstakt stéttarfélag á íslenskum vinnumarkaði. Það er félag fjölbreytninnar. Við erum alls konar fólk með alls konar menntun í alls konar störfum fyrir alls konar vinnuveitendur.

Við eigum alls konar erindi fyrir hönd okkar félaga á ótrúlega mörgum vígstöðvum. Það er gott að vera í slíku félagi og okkur hefur tekist vel upp í gegnum árin sem best sést á því að fjöldi félagsmanna hefur rúmlega þrefaldast á örfáum árum. Fyrir vikið erum við í dag stærsta aðildarfélag BHM með tilheyrandi áhrifum á stefnu bandalagsins.

Á þessu ári bíða okkar flókin verkefni hvað kaup, kjör og aðbúnað varðar. Það mun reyna mikið á útsjónarsemi og langtímahugsun í samningaviðræðum við ríki, sveitarfélög og einkamarkaðinn. Við búum við hraða þróun á vinnumarkaði, þar sem krafan um sveigjanleika og tileinkun nýrrar þekkingar og hæfni verður sífellt ágengari. Í náinni framtíð munum við sjá mörg störf sem við þekkjum hverfa og önnur ný verða til.

Eitt af megin hlutverkum stéttarfélaga verður að auðvelda félögum sínum að takast á við þær breytingar sem þetta hefur í för með sér. Hlutastörf og verkefnaráðningar stefna í að verða meira ráðandi heldur en áður. Háskólamenntunin ein og sér gefur ekki ótakmarkaðan aðgang að verkefnum á vinnumarkaði hvorki nú né í framtíðinni. Samkeppni fer vaxandi og árangur í starfi er mældur með ýmsum aðferðum, sem stundum virðast framandi og illskiljanlegar.

Hafandi staðið í brúnni fyrir Fræðagarð á þessu sviði frá stofnun félagsins tel ég mig geta lagt mikið af mörkum í þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru. Kannski meira en nokkru sinni fyrr. Styrkleiki okkar felst annars vegar í fjölbreytileika heildarinnar og hins vegar í þekkingu á sérhagsmunum einstaklinganna. Við erum í senn öflugur samnefnari og sterkur bakhjarl hvers og eins okkar. Í báðum tilfellum eru uppsöfnuð þekking og reynsla undanfarinna ára sterkustu vopn okkar. Þess vegna býð ég mig fram til formennsku í Fræðagarði á komandi kjörtímabili og mun skv. lögum félagsins láta af störfum að því loknu.

Á vefsíðu minni, bragiskulason.is geri ég nánari grein fyrir áherslum mínum og hugðarefnum auk þess sem þar er að finna helstu greinar sem ég hef skrifað sem formaður Fræðagarðs á síðustu mánuðum og misserum. Þar má einnig finna stutt kynningarmyndband sem útbúið var fyrir kjörstjórn Fræðagarðs og er jafnframt aðgengilegt á Youtube.

Sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=RZPh4H2GTvY

Hvað persónulegu hliðina varðar er ég eiginmaður, faðir, afi. Ég er með doktorsgráðu í mannfræði og m.a. fyrrverandi sjúkrahúsprestur.

Bragi Skúlason

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Kæru félagar!

Ég heiti Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og ég býð mig fram til að gegna embætti formanns Fræðagarðs.

Ástæða þess að ég býð mig fram til forystu er að ég brenn fyrir baráttu launafólks og jafnrétti á vinnumarkaði. Ég hef setið í stjórn Fræðagarðs frá 2019 og gegnt starfi gjaldkera síðustu tvö árin. Ég tel mikilvægt að efla félagið okkar enn frekar í að bæta kjör, vinnuumhverfi og réttindi félagsfólks.

Framundan eru stór verkefni. Kjaraviðræður við sveitarfélög standa yfir og samningar við ríki og Reykjavíkurborg verða lausir 2023. Eitt af stóru ágreiningsmálunum er starfsmatskerfi sveitarfélaga sem hentar illa fyrir sérfræðimenntaða. Þessu þarf að breyta. Ég hlakka til að leiða kjaraviðræðurnar og tryggja betri kjör og réttindi félagsfólks.

Langtímaverkefni okkar sem störfum innan verkalýðshreyfingarinnar er að leiðrétta skakkt verðmætamat starfa. Hefðbundin kvennastörf eru almennt metin til lægri launa en hefðbundin karlastörf.

Leiðrétting á langvarandi kjaramisrétti kynjanna er réttlætismál sem helst í hendur við aðrar aðgerðir, svo sem að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla, auka sveigjanleika í störfum, tryggja öryggi á vinnustað (#MeToo) og vinna gegn fjölþættri mismunun. Fjölbreytileiki starfsfólks styrkir íslenskan vinnumarkað og samfélag.

Aðkallandi verkefni Fræðagarðs er að tryggja stöðu launafólks á vinnumarkaði sem tekur örum breytingum, með fjölgun verktakaráðninga og aukinnar fjarvinnu. Mörg okkar hafa reynslu af harkhagkerfinu og þekkja vel hvernig réttindi okkar skerðast í þeim aðstæðum. Fræðagarður þarf að vera öflug rödd í því að treysta réttindi launafólks í þessu breytilega vinnumarkaðsumhverfi og getur orðið
miðstöð þekkingar og þjónustu fyrir verktakaráðið starfsfólk.

Fræðagarður er stórt og öflugt félag og við eigum að vera leiðandi í samfélagsumræðunni. Til að svo megi verða þarf félagið að vera sýnilegt út á við. Tel ég mig í stakk búna til að leiða það starf í góðri samvinnu við félagsfólk, stjórn og aðildarfélög BHM.

Samstaða vinnandi fólks er grundvöllur í baráttunni fyrir betri kjörum, ekki síst háskólamenntaðra sérfræðinga. Margt hefur áunnist síðustu árin og áratugina, en við eigum marga sigra eftir til að bæta lífskjör okkar allra. Ef ég hlýt kosningu sem formaður Fræðagarðs mun ég starfa af heilindum og krafti að bættum kjörum félagsfólks og réttlæti á vinnumarkaði.

Ég hef sett upp vefsíðuna www.brynhildurho.is þar sem finna má nánari upplýsingar um stefnumál mín og störf. Ég vonast til að heyra frá ykkur, hvort sem þið hafið spurningar, tillögur eða áskoranir. Sköpum saman betri framtíð!