Fara í efni

Framboð til stjórnar Fræðagarðs 2020


Ágúst Arnar Þráinsson

Kæru félagar í Fræðagarði ég sendi ykkur hér stutta kynningu á mér. Þar sem ég hef ákveðið að bjóða fram krafta mína í stjórn Fræðagarðs.

Ég heiti Ágúst Arnar Þráinsson er 30 ára, lærði tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands og útskrifast þar júní 2018. Ég vinn sem deildarstjóri í frístundaklúbbnum Klettinum. Sem er frístundastarf fyrir börn og unglinga með fatlanir.
Ég er fæddur og uppalinn á Ísafirði eða svona nánast, tók fyrstu árin í Hnífsdal. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á öllu félagsstarfi og hef setið í stjórnum hinna ýmsu félagasamtaka.
Núna er ég starfandi formaður Félags fagfólks í frítímaþjónustu. Ég var í framboði fyrir Röskvu í Háskólanum 2017 og 2018. Ég var líka trúnaðarmaður í starfsmannafélagi Reykjavíkur(Sameyki núna)
Einnig fékk ég að vera einn af fulltrúum Fræðagarðs á aðalfundi BHM 2019.
Ég vona að þið kjósið mig í stjórn Fræðagarðs því ég tel bæði reynslu og náms míns vegna að ég sé góður fulltrúi í stjórn.
Ég er duglegur, drífandi og afskaplega jákvæður.
Helstu baráttumál hjá mér er að bæta upplýsingagjöf til félagsmanna.
Stytting vinnuviku er mér ofarlega í huga og tel ég mikilvægt að við vinnum áfram að lausnum hvernig við getum framkvæmt styttinguna. Einnig vil ég gera einfalda útgáfu af kjarasamningum þannig að félagsmenn þekki réttindi sín.
Ef þið hafið einhverjar spurningar þá endilega hafið samband.
Kveðja
Ágúst Arnar Þráinsson
Agustth@hafnarfjordur.is


 


Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir
Ég, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, býð mig fram í stjórn Fræðagarðs. Ég er bókmenntafræðingur að mennt, með B.A. gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og M.A. og M.Phil. gráðu í enskum bókmenntum frá Columbia University í Bandaríkjunum. Ég stunda nú meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, meðfram starfi.
Ég starfa sem framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, félagasamtök sem stofnuð voru 1907 til að starfa að kvenréttindum og jafnri stöðu kynjanna. Í starfi mínu hef ég átt náið samstarf með samtökum launafólks til að stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, t.d. í baráttufundum út um allt land á kvennafrídegi 2016 og 2018 og þjóðfundi #MeToo kvenna 2018. Ég er einnig sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur og hef m.a. tekið að mér þáttagerð hjá Ríkisútvarpinu. Sú reynsla hefur kennt mér að við sem erum sjálfstætt starfandi erum oft utanveltu þegar kemur að því að ræða kjarabaráttu.
Ég hef langa reynslu af félagsstörfum og hef setið í stjórnum ýmissa félaga, á sviðum bókmennta, kvenréttinda og kjaramála. Ég hef sterka réttlætiskennd og lít á starf stéttarfélaga sem grundvallaratriði til að bæta stöðu okkar allra hér á Íslandi. Ég var kosin í varastjórn Fræðagarðs árið 2019 og hef á síðasta ári fengið dýpri innsýn inn í kjarabaráttuna.
Samstaða vinnandi fólks er grundvöllur fyrir betri kjörum, ekki síst háskólamenntaðra sérfræðinga. Margt hefur áunnist síðustu árin og áratugina en við eigum marga sigra eftir til að bæta lífskjör okkar allra. Við þurfum að meta menntun til launa, tryggja hagsmuni launafólks í breytingum á vinnumarkaði, halda áfram að stytta vinnuvikuna, brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla, bæta starfsumhverfi til að koma í veg fyrir kulnun og tryggja jafnrétti á vinnumarkaði.
Ég heiti því að starfa að betri kjörum félagsfólks alls ef ég næ aftur kjöri í stjórn Fræðagarðs.
Nánari upplýsingar: www.brynhildurho.wordpress.com


 


Eðvald Einar Stefánsson
Ég heiti Eðvald Einar Stefánsson og býð mig fram til stjórnar Fræðagarðs. Ég er með B.A. í uppeldis- og menntunarfræði, M.A. í menningarstjórnun og framhalds diplóma í jafnréttisfræðum. Ég er sérfræðingur hjá umboðsmanni barna og hef verið þar starfandi nú í rúm tólf ár. Þá hef ég verið virkur í starfi Fræðagarðs undanfarin ár, fyrst í stjórn fræðslusjóðs og svo sem skoðunarmaður reikninga.
Ég tel mig hafa margt til málanna að leggja í stjórn Fræðagarðs. Ég er réttsýnn og vil stuðla að því að félagsmenn séu vel meðvitaðir um sín réttindi og þá sérstaklega hvað varðar stofnanasamninga. Ég hef sjálfur þurft að leita til Fræðagarðs meðal annars til að fá betri skilning á stofnanasamningum og veit hvað það er mikilvægt að geta fengið góða aðstoð þegar á þarf að halda. Gott stéttarfélag á að vera til staðar fyrir sitt félagsfólk bæði i blíðu og stríðu og að því vil ég stuðla.
Stytting vinnuvikunnar er stórt og mikilvægt skref í átt að góðu og fjölskylduvænu samfélagi. Nauðsynlegt er að hún verði til góðs og að félagsmenn geti notið hennar eins vel og kostur er. Meiri tími með fjölskyldu er að sjálfsögðu dýrmætur en aukinn tími til að sinna sínum áhugamálum og tómstundum er einnig mikilvægur og eitt af góða sem styttingin getur falið í sér. Ég vil einnig leggja áherslu á að félagið verði viðbúið til að leita leiða til að styðja sína félagsmenn til tómstundaiðkunar sem er þess fallið að styrkja og efla.
Ég hef mikinn áhuga á að koma betur að starfi Fræðagarðs og leita því eftir ykkar atkvæði. Ég vona að þið treystið mér til að vinna að því verkefni með og fyrir ykkur því ég vil svo sannarlega láta gott af mér leiða í ykkar þágu.
Hlekkur á kynningarmyndband: https://youtu.be/Whvml74fKUg


 


Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
Komið sæl! Guðrún Ýr heiti ég og er 31 árs, ég bý í Hafnarfirði með manninum mínum og tveimur börnum. Ég starfa sem forstöðumaður/verkefnastjóri Klifsins- skapandi seturs í Garðabæ. Ég hef lokið BA námi í listfræði og meistaranámi í menningarstjórnun, ásamt því að hafa lagt stund á fatahönnun og nú síðast samhliða starfi meistaranámi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum.
Það tengja eflaust flestir félagar Fræðagarðs að vera í mínum sporum að hafa menntun sem einskorðast ekki við eitt starf og því gott að geta leitað til stéttarfélags sem hefur hag félaga sinna í huga óháð starfsumhverfi hvers og eins.
Það er mikilvægt að stéttarfélögin fylgi breytingum á vinnumarkaði jafnt sem í samfélaginu. Hvort sem það eru kjaramál eða önnur mál sem varða okkur á aðra máta líkt og heilsuefling.
Ég hef mikinn áhuga á að koma inn í stjórn Fræðagarðs til þess að taka þátt í að gera stéttarfélagið að enn betra félagi en það er í dag. Svo ég vitni í hana Grétu Maríu Grétarsdóttur framkvæmdastjóra Krónunnar um mikilvægi þess að þora að þróast og breytast, “staðan í dag er aldrei ásættanleg”.
Horfum til framtíðar og sköpum stéttarfélag sem leiðir okkur áfram í takt við tímann.


 


Hafdís Dögg Guðmundsdóttir
Ég er félags- og lýðheilsufræðingur með BA-próf í félagsfræði frá Háskóla Íslands, diplóma í viðskiptastjórnun frá Álaborgarháskóla og mastersgráðu í lýðheilsufræðum frá Háskólanum í Reykjavík. Ég starfaði í 14 ár hjá stéttarfélagi, Kennarasambandi Íslands (KÍ), en hef starfað undanfarin tæp þrjú ár í mannauðsdeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Störf mín hafa að miklu leyti snúist um starfsumhverfið og tryggja öryggi starfsfólks, velferð þess og vellíðan í vinnu. Hef víðtæka þekkingu á sviði starfsumhverfis- og jafnréttismála meðal opinberra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði og að nokkru leyti í norrænum og evrópskum samanburði. Störf mín hafa falist í miðlun, úrvinnslu og ráðgjöf ásamt því að stýra afmörkuðum verkefnum í starfsmanna- og jafnréttismálum. Hef einnig góða þekkingu á kjara- og réttindamálum opinbers starfsfólks.
Ég hef fengið tækifæri til að vinna með ýmsum samstarfs- og hagsmunaaðilum á vinnumarkaði, svo sem VIRK Starfsendurhæfingarsjóði, Vinnueftirlitinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og velferðarráðuneytinu. Ég sat fyrir hönd KÍ í vinnuhópi ráðuneytisins um gerð reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og í aðgerðarhópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti.
Ég býð mig fram í stjórn Fræðagarðs því ég hef bæði reynslu og hæfni til að sinna þeim verkefnum sem þátttaka í stéttarfélagsstarfinu felur í sér og mikinn áhuga og metnað fyrir velferð háskólamenntaðs starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði. Það yrði mér heiður að leggja mitt af mörkum í stjórn Fræðagarðs.


 


Helga B Kolbeinsdóttir
Helga B Kolbeinsdóttir heiti ég og er í stjórn Fræðagarðs, ásamt því að vera gjaldkeri félagsins.
Ég býð mig fram til áframhaldandi stjórnarstarfa fyrir Fræðagarð. Núna starfa ég á almenna markaðinum og sé um bókhald hjá tveimur heildsölum en hef áður unnið fyrir ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélag svo ég hef prufað að vera launþegi á öllum mörkuðunum vinnuafls landsins. Þekki því áskoranir launþega á þessum mörkuðum og vil vinna að hagsmunum okkar allra.
Ég er með B.A. próf í stjórnmálafræði með hagfræði sem aukagrein og er að mestu búin með master í skattskilum og reikningshaldi sem ég hef dundað mér í með fullri vinnu.
Minn mesti áhugi beinist að kjörum og réttindum félagsmanna Fræðagarðs og hef ég sinnt ýmsum krefjandi verkefnum fyrir félagið á þessum sviðum eins og samningavinnu, fræðslumálum og fjármálum félagsins.
Þegar kemur að kjörum félagsmanna þá vil ég vinna að því að sjá þau batna og þess vegna er ég í samninganefnd við Reykjavíkurborg og einnig við sveitarfélögin. Verkefni sem ennþá eru í gangi og vonandi sér fyrir jákvæðan enda á sem fyrst.
Á sama tíma hafa réttindi félagsmanna verið mér hugleikin og sit ég í stjórn orlofssjóðs Bandalags háskólamanna fyrir hönd Fræðagarðs, ásamt því að vera gjaldkeri orlofssjóðsins.
Undanfarna mánuði hef ég ásamt nokkrum öðrum stjórnarmönnum verið í upplýsingahóp sem unnið hefur að uppsetningu á nýrri heimasíðu félagsins. Sá hópur mun koma að fræðslumálum fyrir félagsmenn Fræðagarðs og vonast ég til að fá að taka þátt í því verkefni þar sem ég stýrði fræðslusjóði Fræðagarðs frá stofnun hans 2010 til 2014.
Ég vonast til að geta barist áfram fyrir hagsmunum okkar félagsmanna!
Hlekkur á kynningarmyndband: https://youtu.be/StXuKeI9irg


 


Hrafnhildur Halldórsdóttir
Ég býð mig fram til starfa í stjórn Fræðagarðs. Ég hef starfað í stjórn Fræðagarðs sl. þrjú ár og hef ákveðið að sækjast áfram eftir kjöri í stjórn í þessu öfluga og kraftmikla félagi. Ég tel að kraftar mínir nýtist vel í því að opna umræðuna um styrk þess að tilheyra slíku félagi sem Fræðagarður er.
Ég er fædd árið 1964 og eftir stúdentspróf fór ég til Salzburgar í Austurríki og þaðan lauk ég meistaranámi í fjölmiðlafræði árið 1993. Ég hef starfað í fjölmiðlum alla tíð síðan, lengst af hjá ruv, fengist við alls konar dagskrárgerð aðallega í útvarpi. Ég er skólastjóri ruv skólans sem er endurmenntunarverkefni hjá ruv, sit í dagskrárráði rásar 2. Auk þess hef starfað sem rekstrarstjóri bæði á rás 1 og 2. Ég stýri mínum eigin þætti á sunnudögum á rás 2 sem heitir Sunnudagssögur og starfa einnig bæði við morgun- og síðdegisútvarp rásar 2.
Ég tel mig eiga erindi í stjórn Fræðagarðs, mig langar að leggja mitt af mörkum við að standa
vörð um hagsmuni háskólafólks og mig langar líka til að fræða fólk um þá kosti sem því fylgja að vera í slíku félagi.
Hlekkur á kynningarmyndband: https://youtu.be/lisC-1VQugE


 


Inga María Leifsdóttir
Ég heiti Inga María Leifsdóttir og starfa sem verkefnastjóri á skrifstofu menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Ég vinn mikið við ýmis stjórnsýslutengd mál en vinn einnig í margskonar kreatívum og skemmtilegum verkefnum svosem bókmenntaverðlaunum Reykjavíkurborgar, hátíðum og viðburðum Reykjavíkurborgar, styrkjum á sviði menningarmála og margt fleira.
Ég fylgist náið með störfum Fræðagarðs og tel stéttarfélagið hafa brýnu erindi að gegna gagnvart félagsmönnum sínum og í samfélaginu öllu. Kjara- og réttindamál starfsmanna eru mér afar hugleikin og er ég stundum kölluð „Che Guevara“ skrifstofunnar minnar – enda brenn ég fyrir að viðurkennd réttindi starfsfólks séu virt og að það sé vel upplýst um þau. Ég myndi hiklaust virkja þann eldmóð í þágu Fræðagarðs. Meðal annarra stefnumála sem eru mér ofarlega í huga eru stytting vinnuvikunnar en það verkefni þekki ég vel eftir nýlegt tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um það mál, samþætting vinnu og fjölskyldulífs og kjarabætur og eftirfylgni kjarasamninga.
Ég hef verið félagsmaður í Fræðagarði síðan árið 2016, þegar ég hóf störf á Borgarbókasafni Reykjavíkur – einnig sem verkefnastjóri. Þar áður vann ég hjá Íslensku óperunni, RIFF og sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Ég lauk M.A.-gráðu frá Columbia University í New York og þar áður B.Ed gráðu í grunnskólafræðum og hef síðan bætt jafnt og þétt við þekkingu mína yfir árin með ýmsu styttra og lengra námi af margvíslegum toga – enda er það mikilvægur hluti af réttindum mínum.
Ég lýsi yfir einlægum vilja til setu í stjórn Fræðagarðs, sem aðal- eða varamaður.


 

 


Óskar Marinó Sigurðsson

Kæru félagar,
Síðan árið 2015 hef ég fengið að starfa í ykkar umboði sem stjórnarmaður í Fræðagarði. Í komandi kosningum sækist ég eftir endurkjöri til þess að halda áfram að vinna að ykkar hagsmunum. Ég útskrifaðist með BSc. gráðu í sálfræði árið 2009, MSc. gráðu í mannauðsstjórnun árið 2012 og bætti síðan við mig verkefnastjórnun frá Háskóla Reykjavíkur árið 2015.

Ég bý að víðtækri starfsreynslu sem mun halda áfram að nýtast félagsmönnum:
Þannig starfaði ég sem ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun í samstarfsverkefni við Reykjavíkurborg, svo ég þekki vel inn á kerfi atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar.
Þá starfaði ég einnig sem sérfræðingur hjá Tryggingastofnun ríkisins og þekki því vel hið flókna kerfi endurhæfingar-, örorku- og ellilífeyris.

Einn af þeim lærdómum sem ég hef dregið af störfum mínum fyrir þessa aðila er að stéttarfélög mega ekki einungis horfa á krónutölur í kjarasamningum. Starfið má ekki bara fara fram á nokkra ára fresti þegar samninga ber að garði. Félögin þurfa einnig að horfa til réttinda félagsmanna þegar erfiðleika ber að garði, sem og hvað tekur við eftir að starfsferli lýkur, bæði sökum aldurs og skakkafalla í lífinu. Þá hef ég starfað undanfarið sem ráðningarstjóri fyrir Elju og þekki því mjög vel þær áskoranir sem háskólafólk standur frammi fyrir á vinnumarkaðnum.

Nái ég kjöri til setu í stjórn Fræðagarðs mun ég halda áfram að standa vörð um réttindi félagsmanna í formi kjara- og stofnanasamninga, orlofsréttindi og að efla sjúkra- og fræðslusjóði. Að auki langar mig til að leggja enn frekari áherslu á að bæta kjör félagsmanna með vildarkjörum við kaup á ýmissi vöru og þjónustu, t.d. sjúkra- og líftryggingum.

Markmið mitt er að sjá Fræðagarð auka lífsgæði félagsmanna sinna, sem ég tel mögulegt ef félagið heldur áfram að stækka.

Kveðja, Óskar Marinó Sigurðsson


 


Rannveig Ernudóttir

Ég heiti Rannveig Ernudóttir, gift og á fjögur börn á aldrinum 6-23 ára. Ég er með BA gráður í guðfræði og tómstunda- og félagsmálafræði. Ég starfa sem virkniþjálfi hjá Reykjavíkurborg og sé um félagsstarf eldri borgara. Ég er varaborgarfulltrúi Pírata og sit í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmannafélags Reykavíkurborgar og öldungaráði Reykjavíkurborgar. Ég hef lengi verið þátttakandi í ýmsum félagsstörfum, allt frá foreldrarfélögum og upp í opinbera stjórnsýslu. Mikilvægast þykir mér að vinna að bættu samfélagi, þar sem allir hafa sömu tækifæri til að ná að dafna og ná frama. Nýjasta áhugasviðið kemur í beinu framhald af því að hafa verið metin hæf til setu í stjórn lífeyrissjóðs LsRb, stéttarfélagsmál og lífeyrismál.

Það sem ég hef fyrst og fremst kynnt mér, fræðst um og myndað mér skoðun á eru:
• Styttri vinnuvika og fjölskylduvænna vinnuumhverfi. Hægt á að vera að sinna fjölskyldulífi og vinnu án þess að starfsfólk sé útkeyrt eða að velja þurfi á milli starfsframa eða fjölskyldunnar. Þetta er lýðheilsumál.
• Láglaunastefna samfélagsins. Í dag eru það ekki bara ófaglærðir sem eru líklegri til að festast í láglaunastarfi, sama á við um störf faglærðra, sérstaklega þeirra sem starfa í umönnunargeiranum.
• Réttur starfsfólks til að velja sér sitt stéttarfélag.
• Framtíð starfa. Sífellt fleiri störfum er skipt út fyrir gervigreind og ekki koma nægilega mörg ný störf í staðinn.
• Endurgreiðslukerfi LÍN þarf að endurskipuleggja til aukinnar sanngirni. Viðmót sjóðsins gagnvart lánþegum verður að breytast og til móts við fólk og aðstæður þeirra.
• Starfslok. Auka þarf sveigjanleika og val þeirra sem eru að fara á eftirlaunaaldur með tilliti til getu og vilja til að starfa áfram eða fara minnka við sig vinnu.
• Auðlesanlegri kjarasamningar og aðgengilegri.
• Auka þarf fræðslu um lífeyris-, verkalýðs- og stéttarfélagsmál, sérstaklega til yngra fólks.
• Mikilvægi þess að samfélagið og atvinnurekendur skilji að þau sem greiði af námslánum verði fyrir tekjuskerðingu árlega.
Hægt er að fræðast frekar um mig á like-síðu minni https://www.facebook.com/rannveigernudottir/ Kær kveðja
Rannveig Ernudóttir
s. 8677750


 

 


Sigrún Einarsdóttir
Kæru félagar,
Ég heiti Sigrún Einarsdóttir og er fjölmiðlafræðingur, ég óska eftir umboði ykkar til stjórnarsetu í stjórn Fræðagarðs og vera ykkar talsmaður. Í dag vinn ég sem verkefna- og viðburðastjóri hjá Samfylkingunni. Ég hef starf við mörg mismunandi störf í samfélaginu, ýmis þjónustu störf, við menningarstofnanir og hátíðar, innan opinberrar stjórnsýslu, alþjóðasamvinnu og fleira. Áður en ég nýlega hóf störf á nýjum vettvangi starfaði ég við sendiráð Íslands í Ósló í þrjú ár en stór partur af þeirri vinnu var hagsmunagæsla Íslendinga í Noregi. Eftir veru mína í Noregi fór ég að starfa í Norræna húsinu sem verkefnastjóri m.a. á samskiptasviði Norrænu ráðherranefndarinnar og var þar í fjögur ár.
Störf mín og reynsla síðastliðin ár hafa gefið mér góðan skilning og reynslu á stjórnsýslu, alþjóðasamstarfi og að vinna með fólki. Mér hefur verið falið trúnaðarstörf í mínum fyrri störfum og ég brenn fyrir réttlát kjör í samfélaginu. Ég hef búið, lært og starfað mikið á Norðurlöndunum og þekki vel til hátta, aðgerða og samfélagsins í þeim löndum.
Við þurfum að skoða kjarabaráttu og bætur heildrænt og auka svigrúm okkar á vinnumarkaði svo við hlúum vel að fólki og tryggjum samfélag þar sem okkur getur liðið vel.
Virðingarfyllst,
Sigrún Einarsdóttir


 


Sigurður Trausti Traustason
Ég hef setið í stjórn Fræðagarðs síðan 2016 og býð mig fram til áframhaldandi starfa. Hjá Fræðagarði hef ég einbeitt mér að því að starfa með hag allra félagsmanna að leiðarljósi. Meðal annars í gegnum kjaramál með setu í samninganefndum. Vinnu í upplýsingahópi sem m.a. vann að nýrri vefsíðu og bættri mörkun félagsins. Ég hef tekið virkan þátt í stefnumótun félagsins undanfarin ár. Mér þykir mikilvægt að félagið vaxi áfram og nýti krafta sem felast í fjölbreytileika þess og stærð. Sömuleiðis að nýir og eldri félagsmenn eigi greiðan aðgang að upplýsingum og þjónustu sem þá varða og mögulegt er að sækja hjá félaginu og að styrkja rödd þeirra innan Fræðagarðs m.a. með eflingu og stofnun fleiri faghópa. Fræðagarður á að vera stuðningsnet fyrir félagsmenn sína og þangað eiga þeir að geta leitað faglegrar ráðgjafar t.d. í atvinnuleit og samningsgerð. Sterk þjónustuskrifstofa er þar grundvöllur fyrir góðri þjónustu.

Fæddur 1982. Háskólanám: BA gráða í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MA gráða í safnafræði frá háskólanum í Leicester. Starfar sem deildarstjóri safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur. Áður m.a. starfað fyrir Rekstrarfélag Sarps, Listasafn Einars Jónssonar og Nordisk Film. Félags og trúnaðarstörf, Ritari Íslandsdeildar ICOM alþjóðaráðs safna, varafulltrúi í Safnaráði, seta í stjórn Listasafns Einars Jónssonar. Áður fulltrúi í stjórn Félags íslenskra safnafræðinga og ritstjórn safnatímaritsins Kvists. Ýmis trúnaðarstörf innan BHM svo sem seta í kjörstjórn og framboðsnefnd.

Bestu kveðjur,
Sigurður Trausti Traustason

Hlekkur á kynningarmyndband: https://youtu.be/SDPWIS0jAFo