Fara í efni

Vegna fundar um bókun 8 í kjarasamningi SNS við Fræðagarð, SBU, FÍF og SL sem undirritaður var árið 2020.

Skrifað undir samning við Sambandið 2020
Skrifað undir samning við Sambandið 2020

2. fundur 15. september 2021

Fundargerð nefndar vegna bókunar 8 í kjarasamningi

Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags háskólamenntaðra sérfræðinga (viðbót: samheiti yfir Fræðagarður, SBU, FÍF og SL)

Fundur haldinn í nefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) og Félaga háskólamenntaðra sérfræðinga (FHS), miðvikudaginn 15. september 2021 kl. 13:30. Fundurinn var haldinn í fjarfundi.

Mætt voru:

Fyrir hönd félaganna: Hjalti Einarsson, Júlíana Guðmundsdóttir, Bragi Skúlason, Georg Brynjarsson, Kristmundur Þór Ólafsson, Jóhann Gunnar Þórarinsson og Gauti Skúlason.

Fyrir hönd sambandsins: Inga Rún Ólafsdóttir og Margrét Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð.

Gestur fundarins: Rósa Björk Bergþórsdóttir, skrifstofustjóri Verkefnastofu starfsmats.

Þetta gerðist:

Farið yfir hverjir væru á fundi og fyrir hverja þeir eru fulltrúar.

Inga Rún fór yfir ferli málsins hjá SNS. Hún sagði meðal annars frá því að væntingar hefðu staðið til þess að breytingar á starfsmati væru í pípunum hjá Pilat, eiganda kerfisins, sem nýst hefðu við mat á háskólastörfum. Fulltrúar SNS hafa átt samskipti við ráðgjafa fyrirtækisins í Englandi sem fékk send gögn vegna þeirra starfa FHS sem hafa verið í sérstakri skoðun samkvæmt bókun 8. Hans mat var að starfsmatsniðurstaðan fyrir þessi störf miðað við kröfur í starfslýsingu væri eðlileg niðurstaða og að ekki ætti að hrófla við núverandi kerfi og hvatti hann SNS til að nota það óbreytt áfram. Hann taldi einnig að háskólamenntun í kerfinu væri frekar ofmetin en vanmetin. Einnig benti hann á að ekki er hægt að breyta kerfinu fyrir einn hóp heldur þarf breytingin að ná til allra sem samið hafa um notkun kerfisins. Fulltrúar FHS bentu á að aðilar gerðu ekki kjarasamning við erlend þjónustufyrirtæki heldur við Samband sveitarfélaga. Þá bentu fulltrúar FHS á að inni á heimasíðu Pilat væri að finna upplýsingar um hið minnsta þrjú sértæk möt fyrir hópa sem finna sig illa innan grunnkerfisins.

Rósa fór yfir glærur og kynnti starfsmat og endurmat þeirra starfa sem um ræðir:

  • Verkefnastjóri 3 (BHM-40). Fimm staðbundin störf hafa verið samþykkt í framkvæmdanefnd eftir endurmat.
  • Verkefnastjóri 3 (BHM-41). Þrjú staðbundin störf hafa verið samþykkt í framkvæmdanefnd eftir endurmat.
  • Deildarstjóri þjónustu frístund barna/unglinga (BHM-63). Tvö staðbundin störf hafa verið samþykkt í framkvæmdanefnd eftir endurmat.
  • Störf háskólamenntaðra sérfræðinga í leikskólum.

Einnig kynnti Rósa tæknilega uppfærslu á starfsmatskerfinu SAMSTARF. Fulltrúar FHS bentu á texta í bókun 8 þar sem kveðið er á um að leggja sérstaka áherslu á að þróa starfsmatskerfið til að það næði betur utan um störf háskólamenntaðra sérfræðinga og stjórnenda.

Niðurstaða:

SNS sér ekki færi á að breyta starfsmatskerfinu til að koma til móts við kröfur FHS. Skýrar verklagsreglur liggja fyrir um allar breytingar á starfsmatskerfinu. Fulltrúar SNS tilkynntu að sé vilji til að gera breytingar á kerfinu sé það í höndum Faglegrar samráðsnefndar um starfsmat sem í eiga sæti fulltrúar allra bandalaga þeirra stéttarfélaga sem samið hafa um starfsmat.

SNS semur um störf háskólamenntaðra leiðbeinenda í leik- og grunnskólum við Félag leikskólakennara og Félag grunnskólakennara.

Fulltrúar FHS mótmæltu afstöðu SNS að semja eingöngu við Félög leikskólakennara og Félög grunnskólakennara um störf háskólamenntaðra þegar það liggur ljóst fyrir að margir félagsmenn Fræðagarðs eru háskólamenntaðir sérfræðingar í leik- og grunnskólum sem hafa ekki hug á því að fara í annað stéttarfélag, enda er það stjórnarskrárvarinn réttur þeirra að vera í því stéttarfélagi sem þeir kjósa.

Samkvæmt bókun 8 ber að taka upp viðræður um röðun starfa FHS utan starfsmats ef ekki næst sameiginleg niðurstaða fyrir 30. september 2021. Aðilar voru sammála um að ekki lægi fyrir sameiginleg niðurstaða í vinnuhópnum.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.30