Fara í efni

Einsemd

Tilfinningaleg einangrun

Tilfinningaleg einangrun þarf ekki að þýða að fólk eigi enga eða fáa félaga. Eiginlega er því oft öfugt farið. Þeir sem hafa djúp trúnaðartengsl við fjölskyldu og vini kunna að þurfa minna á félagslífi að halda. Félagsstörf eru gjarna tengd iðju af ýmsu tagi. Þau fela gjarna í sér samskipti við marga, en ekki endilega á djúpu plani. Tilfinningaleg og félagsleg einangrun eru því tvær sjálfstæðar víddir sem geta skarast, en gera það ekki endilega. Í viðtölum sem undirritaður tók við miðaldra og eldri karla í Svíþjóð fyrir nokkrum árum, var þetta algengt þema. Þeir sem voru mest virkir í félagsstörfum voru oft þeir sem sögðust deila fáum eða engum erfiðum tilfinningum með öðrum. Mikil virkni í félagslífi kann því að verið leið til að verja sig gegn einmannakennd sem er gjarna fylgifiskur tilfinningalegrar einangrunar. Þeir sem deila fáum eða engum erfiðum tilfinningum með einhverjum öðrum, teljast ”tilfinningalega einangraðir”. Erfiðar tilfinningar eru hér skilgreindar sem ótti við sjúkdóma og dauða, kvíði, þunglyndi og vonleysi.

Tilfinningaleg einangrun hjá miðaldra og eldra fólki er nokkuð útbreidd. Fólk sem býr í sambúð deilir gjarna flestu með maka sínum. Konur í sambúð eiga líka oft trúnaðarvini sem þær deila flestu með, en langt frá því allar. Um helmingur miðaldra og eldri kvenna, sem lifa í sambúð, deila fáum eða engum áhyggjum með öðrum en maka sínum. Hjá körlum er hlutfallið hærra. Rúmlega átta af tíu körlum í sambúð deila erfiðum tilfinningum aðeins með maka sínum.

Um það bil sjö af tíu körlum og fjórar af tíu konum, sem ekki búa með maka, deila fáum eða engum erfiðum tilfinningum með einhverjum. Það er alls ekki sjálfgefið fólk vilji tala um erfið mál. Verum ekki uppáþrengjandi. Fólk velur sjálft hvenær og hvort það vill deila erfiðum tilfinningum með öðrum.

Rannsókn á aðstæðum ekkla á íslandi, sem misst höfðu maka á þriggja ára tímabili, leiddi margt fróðlegt í ljós. Yfirgnæfandi meirihluti ekklanna bjuggu áfram einir á heimilum sínum mörgum árum eftir fráfall maka. Í yfirgnæfandi meirihluta tilfella hafði heimilið lítið sem ekkert breyst. Myndir af eiginkonunni stóðu í öndvegi og þeir höfðu oftast útvarpið hátt stillt. Ekklarnir dóu líka fyrr en jafnaldrar þeirra sem voru ennþá í sambúð. Það var marktækur munur á dánartíðni ekkla og annarra karla allt að 9 árum eftir andlát eiginkonu. Ekki hefur verið gerð sambærileg rannsókn meðal íslenskra ekkna.

Í þeim athugunum á tilfinningalegri einangrun sem fjallað er um hér að ofan er fólk ekki spurt beint að því hvort það sé einmanna. Einmannaleiki er tilfinning sem erfitt er að henda reiður á og getur þýtt mismunandi fyrir hvern og einn. Tilfinningaleg einangrun er hér einfaldlega skilgreind útfrá því hvort viðkomandi deili erfiðum tilfinningum með einhverjum öðrum.

Ásgeir R. Helgason, Ph.D.

sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu