Fara í efni

Ályktun varðandi fæðingarorlofssjóð

Aðalfundur Fræðagarðs 28. febrúar 2020 bendir á nauðsyn þess að afnema 20% skerðingu á lágmarkslaunum og tryggja öllum lágmarksframfærslu miðað við neysluviðmið, t.d á meðan á fæðingarorlofi stendur. Núverandi lágmarksframfærsla fólks hjá fæðingarorlofssjóði í 50-100% starfi er 135.525 kr. sem er langt undir neysluviðmiðum. Áherslan hjá stjórnvöldum hefur verið að hækka hámarksgreiðslur allverulega á meðan lágmarksgreiðslur hafa einungis hækkað um fáein prósent. Það er mikilvægt að koma einnig til móts við þá sem eru tekjulágir sem oft á tíðum eru ungir foreldrar.

 

Greinargerð:

Samkvæmt núverandi lögum um fæðingarorlof eiga foreldrar rétt á samtals tíu mánaða fæðingarorlofi. Að því loknu tekur við umönnunarbil sem er mislangt á milli sveitarfélaga, en foreldrar eru tekjulausir á meðan á þessu umönnunartímabili stendur. Að meðaltali eru börn 20 mánaða þegar þau hljóta pláss, en það er misjafnt á milli sveitarfélaga. Það verða því ennþá að meðaltali átta tekjulausir mánuðir fyrir foreldra eftir að tólf mánaða lengingunni er náð 2021.

 

Ríki og sveitarfélög verða að brúa bilið á milli þess að fæðingarorlofi lýkur og dagvistun hefst. Það er óásættanlegt að foreldrar bíði tekjulausir þar sem dagvistunarúrræði eru að skornum skammti. Setja þarf í lög rétt barna til dagvistunar eftir að fæðingarorlofi lýkur og rýmka valkost foreldra með til dæmis foreldragreiðslum.

 

Lög um fæðingarorlof eiga að tryggja börnum samvistir við báða foreldra sína og tryggja jafnrétti á vinnumarkaði. Við sjáum ekki að þessum markmiðum sé náð.

 

Í langflestum tilvikum eru það konur sem taka ólaunað leyfi til að annast barnið þar til dagvistun er náð. Þetta hefur neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði og ljóst er að börn hljóta ekki jafnra samvista/umönnunar við báða foreldra sína.