Fara í efni

Ályktun um stöðu kjaramála í sveitarfélögum og um starfsmatskerfið

Aðalfundur Fræðagarðs 28. febrúar 2020 mótmælir þeim ósveigjanleika sem einkennt hefur vinnubrögð sveitarfélaga í því er varðar bæði framkvæmd þess samnings sem er útrunninn og undirbúning að viðræðum um nýjan kjarasamning. Fundurinn mótmælir framkvæmd starfsmats einkum og sér í lagi vegna þess hversu illa núgildandi kerfi nær utan um störf háskólamenntaðra sérfræðinga og því algera viljaleysi hinum megin við borðið til að gera nauðsynlegar breytingar, þannig að starfsmatskerfið geti náð utan um háskólamenntaða starfsmenn. Endurskoða þarf starfsmatskerfið í heild til þess að það endurspegli nútímastörf og þarfir og gagnist aðilum beggja megin borðsins. Það eða leggja það niður.

 

Geinargerð:

Í gegnum fundarhöld með félagsmönnum um land allt í byrjun árs 2020 hefur stjórn Fræðagarðs fengið staðfestingu um almenna og mikla óánægju með gildandi starfsmatskerfi. Þar vegur mikið sálræni þátturinn, það áfall þegar störf eru metin að litlum verðleikum af kerfi sem nær engan vegin utan um þau og starfsmenn upplifa niðurstöðuna oft á tíðum sem niðurlægingu.

Þótt einstakir starfsmenn lækki ekki sjálfir í launum er þeim annt um stétt sína og una ekki að störf þeirra séu lægra metin eftir starfsmatið en áður.

Kerfið sem hefur ekki verið uppfært í áraraðir og nær engan veginn utan um vinnumarkaðinn eins og hann er uppsettur í dag. Enginn hvati er í því til þess að afla sér aukinnar háskólamenntunar sem stuðlar að framþróun og eru persónubundnir þættir þurrkaðir út. Starfsmatið býr til láglaunasvæði þar sem sveitarfélög sem taka niðurstöður starfsmatsins sem bókstaf eru ekki samkeppnishæf og missa því af hæfu starfsfólki.