Fara í efni

Ályktanir aðalfundar Fræðagarðs 25. febrúar 2021

Aðalfundur Fræðagarðs samþykkti þrjár ályktanir:

a) Aðalfundur Fræðagarðs 2021 lýsir yfir áhyggjum vegna þessmikla fjölda háskólamenntaðs starfsfólks sem misst hefur vinnuna eða býr við skert starfshlutfall í kjölfar COVID-19 faraldursins. Hætt er við að staða þessa hóps versni að mun dragist faraldurinn á langinn. Bætur til þessara einstaklinga eru lágar á atvinnuleysistíma og mjög stór hópur er með umtalsverðar skuldir vegna öflunar náms, auk húsnæðislána og annarrar fjárhagslegrar ábyrgðar sem ekki dregst saman vegna faraldursins.

Aðalfundur Fræðagarðs hvetur stjórnvöld til að koma til móts við þennan hóp, til dæmis með auknum bótarétti vegna atvinnuleysis auk fjárveitinga til nýsköpunar og þróunarverkefna.

b) Aðalfundur Fræðagarðs 2021 leggur áherslu á að stytting vinnuvikunnar er stór áfangi sem náðist í síðustu kjarasamningum. Framkvæmd styttingarinnar hefur almennt gengið vel en þó hafa komið fram hnökrar sem þarf að leiðrétta. Aðalfundur Fræðagarðs leggur áherslu á að til að vel takist við styttingu vinnuvikunnar þurfa öll að leggja sig fram, bæði atvinnurekendur og launafólk. Breytingar á vinnufyrirkomulagi, verklagi og tímastjórnun eru best gerðar í reglulegu umbótasamtali stjórnenda og starfsfólks. Aðalfundur Fræðagarðs hvetur alla hlutaðeigandi til að ganga að þessu verkefni með sveigjanleika og sanngirni.

c) Aðalfundur Fræðagarðs 2021 hvetur stjórnvöld til að framlengja heimild til að greiða séreignarsparnað skattfrjálst inn á húsnæðislán, sem rennur út 30. júní 2021. Á undanförnum árum hefur húsnæðisverð á Íslandi hækkað verulega og sífellt erfiðara er fyrir ungt fólk að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaði. Með því að framlengja úrræðið um heimild til greiðslu séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán koma stjórnvöld áfram til móts við stóra hópa á fasteignamarkaði, sem er sérlega mikilvægt á tímum fordæmalausra efnahagsþrenginga af völdum heimsfaraldurs COVID-19.

Þessum ályktunum hefur verið komið á framfæri við stjórnvöld.