Fara í efni

Afmælishátíð

Árið 1976 var uppi sú staða, að þeir háskólamenn á íslenskum vinnumarkaði sem ekki rúmuðust innan fagstéttarfélaga í Bandalagi háskólamana urðu að fá einstaklingsaðild að BHM, en það er nokkuð sem ekki er mögulegt í dag. Þeir háskólamenntuðu starfsmenn hjá ríki, sveitarfélögum og á einkamarkaði sem leita eftir aðild að BHM í dag, sækja um aðild að tilteknu aðildarfélagi, en þau eru í dag 27 alls.

Aðildarfélög BHM eru ólík um margt, en öll eiga þau það sameiginlegt, að félagsmenn þeirra eru háskólamenntaðir og hafa lokið í það minnsta BA eða BS námi. Til er líka í nokkrum aðildarfélögum, að nemar geti fengið svokallaða nemaaðild, en hún felur ekki í sér fulla félagsaðild greiðandi, útskrifaðra háskólamanna.

Stofnun, samstarf og sameining

Þann 29. maí 1978 ákváðu 37 einstaklingar með einstaklingsaðild að BHM að stofna sérstakt félag. Hlaut félagið nafnið Útgarður og var það nokkuð öðru vísi en önnur aðildarfélög BHM á þeim tíma, því þar rúmuðust þeir háskólamenntuðu starfsmenn innan BHM sem ekki rúmuðust í hinum félögunum. Rúmum 20 árum eftir stofnun Útgarðs, í lok árs 1999, var stofnað til þjónustuskrifstofu á vegum Útgarðs og samstarfsfélaga, þeirra á meðal Félags íslenskra fræða-kjaradeild. Á árinu 2008, áður en að hruni kom, sameinuðust Félag íslenskra fræða-kjaradeild og Útgarður í eitt félag, Fræðagarð, og var stofnfundur haldinn 18. júní 2008.
29. maí höldum við afmælishátíð til að minnast þessara tímamóta í Borgartúni 6, 4. hæð kl. 16:30-18:30. Við bjóðum öllum félögum í Fræðagarði til afmælisfundarins og ennfremur fulltrúum samstarfsfélaga og samningaðila til hátíðarinnar okkar.