Beint í efni

Íris Halla Guðmundsdóttir

Framboð til stjórnar Fræðagarðs 2023

Ég býð mig fram til stjórnarsetu fyrir Fræðagarð. Ég hef verið fulltrúi fyrir Fræðagarð á aðalfundum BHM síðan 2017 og hef mikinn áhuga á kjaramálum.

Menntun mín er BA próf í Uppeldis-og menntunarfræðum og MA próf í Náms- og starfsráðgjöf og bætti ég svo við mig MA í Mannauðsstjórnun á síðasta ári.

Ég hef unnið hjá Vinnumálastofnun síðustu 11 ár og hef víðtæka reynslu af ráðgjöf fyrir atvinnuleitendur. Þá var ég í innleiðingarhóp Vinnumálastofnunar fyrir styttingu vinnuvikunnar sem hefur gefist vel meðal starfsfólks. Í dag er ég verkefnastjóri yfir verkefni sem ber heitið Vegvísir. Tilgangur þess verkefnis er að byggja brýr milli kerfa fyrir ungt fólk og kallar verkefnið á samráð og samstarf við aðila sem koma að því sem eru Vinnumálastofnun, Reykjavíkurborg, Virk Starfsendurhæfingarsjóður, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Tryggingastofnun.

Ég tel mikilvægt að stjórnarfólk komi frá fjölbreyttum hópi starfsstétta hjá Fræðagarði svo að ólík sjónarmið nái að koma fram á stefnumótandi fundum félagsins. Þá mun ég hafa hagsmuni okkar félagsmanna að leiðarljósi í minni vinnu og leggja sérstaka áherslu á að menntun sé metin til launa.

Það er mikill baráttuhugur í mér og mun ég leggja áherslu á að sjá félagið stækka enn meira. Ég mun líka beita mér fyrir að þau réttindi sem við höfum áunnið okkur haldist þegar skipt er um vinnu. Auka þarf sveigjanleika félagsmanna við endurgreiðslu námslána og sér í lagi að komið sé til móts við þarfir einstaklinga sem takast á við fjárhagslega erfiðar aðstæður. Þá tel ég mikilvægt að komið sé við eftirlaunaþega af nærgætni og af virðingu við starfslok og að tekjuskerðingar Tryggingastofnunar meðal lífeyrisþega séu með öllu óásættanlegar. Auka þarf upplýsingagjöf til félagsmanna um áhrif kerfisbreytinga og mismunandi samsetningar lífeyrissparnaðar á lífeyrisréttindi til framtíðar. Ég mun beita mér fyrir því að réttur til heimavinnu verði tryggður í næstu kjarasamningum. Auk þess vil ég festa styttingu vinnuvikunnar í sessi og mun ég beita mér fyrir sveigjanlegri útfærslu hennar eftir því hvort fólk starfar í dagvinnu eða vaktavinnu.

Ég vonast eftir að fá þinn stuðning til stjórnarsetu.

Kær kveðja, Íris Halla Guðmundsdóttir