Beint í efni

Jólakveðja formanns

Heilir og sælir kæru félagar!

Nú líður að jólum, ljósaseríurnar blikka í gluggunum og norðanvindurinn feykir snjó inn í strætóskýlin. Árið sem nú er að líða hefur verið ár endurnýjunar en að sama skapi óvissu. Á árinu var þjóðin bólusett gegn COVID-19 og vinnumarkaðurinn tók við sér eftir tveggja ára heimsfaraldur en skelfilegar fréttir bárust úr heimi þegar Rússar réðust inn í Úkraínu og stríð er háð í sveitum Evrópu í fyrsta sinn á þessari öld. Innrásin í Úkraínu hefur valdið töluverðri ólgu á heimsvísu og gamli verðbólgudraugurinn heimsótti okkur á haustmánuðum.

Ég var kosin til forystu Fræðagarðs á vormánuðum og tók þar við sterku stéttarfélagi af Braga Skúlasyni. Mikil endurnýjun var samhliða í stjórn félagsins og fjórir nýir fulltrúar tóku sér sæti þar. Nú sitja ásamt mér í stjórn Fræðagarðs: Helga Kolbeinsdóttir varaformaður, Linda Björk Markúsardóttir ritari, Eðvald Einar Stefánsson gjaldkeri, Inga María Leifsdóttir meðstjórnandi, Sigrún Einarsdóttir meðstjórnandi, Sunna Björt Arnardóttir meðstjórnandi, Ágúst Arnar Þráinsson varastjórnandi og Haukur Logi Jóhannsson varastjórnandi.

Við í stjórn Fræðagarðs höfum starfað þétt saman síðustu mánuði. Samhliða því að byggja upp innviði félagsins höfum við farið í stefnumótun til að kortleggja framtíðarsýn og gildi Fræðagarðs – framsýni, jafnrétti og ábyrgð. Hefur það verið gleði okkar í stjórn að fá að starfa með frábæru starfsfólki þjónustuskrifstofu félagsins sem sér um daglegan rekstur félagsins og þjónustu við félagsfólk.

Ný vefsíða félagsins var gefin út á árinu þar sem lögð var áhersla á aðgengileika upplýsinga og kjarasamninga í öllum tækjum og hafist var handa við að þýða síðuna á ensku og á pólsku til að ná til fólks sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Skrifstofa félagsins hlaut á árinu Regnbogavottun Reykjavíkurborgar og var markmiðið með vottuninni að gera starfsemina hinseginvænni, bæði fyrir starfsfólk og þjónustuþega og þannig koma í veg fyrir beina og óbeina mismunun í garð hinsegin fólks.

Þrír nýir faghópar Fræðagarðs voru stofnaðir á árinu: faghópar táknmálstúlka, listmeðferðarfræðinga og tómstunda- og félagsmálafræðinga og annars fagfólks í tómstundastarfi og bætast þeir við faghópa safnafólks, íþróttafræðinga, talmeinafræðinga og djákna sem þegar voru virkir í félaginu. Faghópar starfa að uppbyggingu sinnar fagstéttar með stuðningi Fræðagarðs. Hvetjum við öll sem hafa áhuga á að stofna faghóp fyrir sína stétt að hafa samband við okkur. Fræðagarður vill styrkja fagþróun alls félagsfólks.

Samhliða því að byggja upp innviði félagsins höfum við starfað þétt með systurfélögum okkar fjórum sem hafa rekið þjónustuskrifstofu með okkur í áraraðir: Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga og Stéttarfélag lögfræðinga. Jafnframt höfum við starfað með öðrum félögum innan BHM að undirbúningi kjaraviðræðna á árinu en samningar við ríki og sveitarfélög losna 1. apríl næstkomandi.

Fræðagarður og önnur aðildarfélög BHM kynntu sameiginlegar áherslur fyrir komandi kjaraviðræður í nóvember. Jafnréttismálin eru að sjálfsögðu alltaf í forgrunni hjá okkur en í núverandi stöðu er ef til vill mikilvægast að leggja kapp á að verja kaupmátt launa. Í rannsókn BHM á árinu kom í ljós að hér á Íslandi borgi sig síður að afla sér háskólamenntunar og að aðsókn ungs fólks í háskólanám sé mun minni á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Enn fremur sýndi rannsóknin að verulega halli á kvenkyns sérfræðinga á íslenskum vinnumarkaði. Þessu þurfum við að breyta.

Fræðagarður hefur aldrei vaxið hraðar en á þessu ári, okkur hefur fjölgað um 18% og nálgumst hratt að verða 4.000 sterk saman. Stjórn félagsins hefur allan hug á því að margfalda félagsfjölda á næstu árum og höfum við fulla burði til að verða eitt af stærstu stéttarfélögum landsins. Innan okkar raða er fólk úr öllum áttum með alls konar menntun sem starfar að alls konar störfum. Fræðagarður endurspeglar framtíð íslensks vinnumarkaðs, þekkingar- og velferðarsamfélag sem byggt er upp af fólki úr öllum heimshornum þar sem ólík þekking og reynsla er metin að verðleikum.

Nú þegar árið er á enda horfum við í stjórn og á skrifstofu Fræðagarðs til framtíðarinnar. Áskoranirnar eru margar en tækifærin enn fleiri. Á skrifstofunni vinnum við að því að efla þjónustu við félagsfólk, setja upp Mínar síður fyrir félagsfólk og efla stuðning við námsfólk og innflytjendur. Í stjórninni vinnum við þétt með skrifstofunni og systursamtökum okkar innan BHM að undirbúningi kjaraviðræðna á árinu og áframhaldandi uppbyggingu félagsins.

Við í Fræðagarði óskum ykkur og fjölskyldu ykkar og ástvinum gleðilegra jóla. Við hlökkum til að starfa með ykkur á nýju ári.

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir