Beint í efni

Aðalfundur Fræðagarðs afstaðinn

Aðalfundur félagsins fór fram í húsakynnum BHM þriðjudaginn 28. febrúar

Aðalfundur Fræðagarðs kom saman á 4. hæð í Borgartúni 6 síðdegis í gær. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf félagsins. Skýrsla stjórnar félagsins fyrir liðið starfsár var kynnt og ársreikningar félagsins voru samþykktir. Þá samþykkti aðalfundur ný lög félagsins .

Linda Björk Markúsardóttir aðalfulltrúi í stjórn Fræðagarðs.

Undir dagskrárliðnum önnur mál lagði stjórn félagsins fram tillögu að samþykkt aðalfundar og tillögu að ályktun aðalfundar og samþykkti fundurinn hvoru tveggja.

Samþykkt aðalfundar

Stjórn Fræðagarðs óskar eftir umboði aðalfundar til að taka upp viðræður við önnur stéttarfélög háskólamenntaðs fólks um sameiningu félaganna. Markmið viðræðnanna er að kanna kosti þess að sameinast í nýtt og öflugt stéttarfélag háskólamenntaðra sérfræðinga sem byggir á sterkum og fjölbreyttum grunni ólíkra félaga og er jafnframt í stakk búið til að takast á við áskoranir á vinnumarkaði framtíðarinnar.

Ályktun aðalfundar

Aðalfundur Fræðagarðs bendir á að launaumhverfi sveitarfélaga stenst ekki þær kröfur sem gera þarf til slíkra kerfa í dag. Nauðsynlegt er að treysta kjör starfsfólks með úrbótum á launaumhverfi sveitarfélaganna, svo sem með hækkun grunnlauna og fjölgun launaliða. Aðalfundur Fræðagarðs hvetur sveitastjórnir og stjórnendur sveitarfélaga til að gera nauðsynlegar úrbætur á launaumhverfi sínu og meta menntun, ábyrgð og reynslu starfsfólks að verðleikum.

Á fundinum var farið yfir niðurstöður úr kosningum í stjórn félagsins en þær höfðu verið tilkynntar fyrr í febrúar. Íris Halla Guðmundsdóttir og Linda Björk Markúsardóttir voru kjörnar aðalfulltrúar í stjórn félagsins til næstu tveggja ára. Eðvald Einar Stefánsson og Andrés Erlingsson voru kjörnir varafulltrúar í stjórn félagsins til eins árs.

Haukur Logi Jóhannsson og Ágúst Arnar Þráinsson létu báðir af störfum sem varafulltrúar í stjórn félagsins og vill nýkjörin stjórn Fræðagarðs þakka þeim fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Ágúst Arnar Þráinsson
Haukur Logi Jóhannsson

Fundargögn og fundargerð aðalfundarins má finna hér.