Beint í efni

Linda Björk Markúsardóttir

Framboð til stjórnar Fræðagarðs 2023

Ég heiti Linda Björk Markúsardóttir, er fædd árið 1983 og býð mig fram í áframhaldandi setu í stjórn Fræðagarðs. Ég er íslensku- og talmeinafræðingur að mennt, útskrifaðist með BA gráðu í íslensku árið 2010 frá Háskóla Íslands og MSc í talmeinafræði frá þeim sama skóla árið 2013. Síðan þá hef ég starfað sem talmeinafræðingur á endurhæfingardeild Landspítala (Grensási) en starfa jafnframt sjálfstætt hjá Talsetrinu. Reynsla mín af félagsstörfum er margvísleg. Auk setu minnar í stjórn Fræðagarðs átti ég um þriggja ára skeið sæti í samninga- og samstarfsnefnd sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga við Sjúkratryggingar Íslands, þar af í ár sem formaður nefndarinnar.

Einn af mínum styrkleikum sem stjórnarmaður er sú staðreynd að ég tilheyri tveimur vinnumörkuðum og ég legg áherslu á að standa vörð um réttindi og hagsmuni allra félagsmanna, þá ekki síst þeirra sem eru sjálfstætt starfandi. Ég er auk þess mikil áhugamanneskja um samþættingu farsæls heimilis- og atvinnulífs þar sem jafnvægi ríkir, brenn fyrir útrýming kynbundins launamunar og því að háskólamenntaðir komi út í ásættanlegum plús þegar litið er til ævitekna. Það að eitthvað hafi alltaf verið gert á áveðinn hátt merkir ekki að aldrei megi breyta um stefnu en ég hef mikla trú á gagnadrifnum ákvörðunum og því að skipta um skoðun, sé það félaginu til góða.

Ég þakka ykkur kærlega fyrir áður sýndan stuðning og óska eftir umboði til að halda áfram að stýra okkur í átt að sterkara, öflugra og skilvirkara félagi.