Haukur Logi Jóhannsson
Framboð til stjórnar Fræðagarðs 2023
Um mig
Haukur Logi Jóhannsson heiti ég og er þriggja barna faðir búsettur í Laugardalnum. Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri en flutti þaðan fyrir um 18 árum síðan, þá fyrst til Danmerkur en síðar til Reykjavíkur þar sem ég hef verið búsettur allar götur síðan. Í grunninn er ég menntaður stjórnmálahagfræðingur en kláraði síðar mastersnám í umhverfis- og auðlindahagfræði frá Háskóla Íslands. Ég starfa í dag sem verkefnastjóri hjá Staðlaráði Íslands og sinni þar fyrst og fremst umhverfistengdri staðlagerð miðaða að íslenskum aðstæðum.
Ég hef starfað í stjórn Fræðagarðs sem varamaður í stjórn undanfarið ár og hefur það verið mikið lærdómsferli fyrir mig. Á ekki lengri tíma höfum við í stjórn Fræðagarðs gert miklar og gagnlegar breytingar á þjónustu og starfi Fræðagarðs fyrir okkar félagsfólk. Við höfum unnið að stefnumótun og gildum félagsins, straumlínulagað reksturinn að mörgu leiti og unnið að ýmsum breytingum sem eiga eftir að koma sér vel fyrir okkar félagsfólk. Við settum í loftið nýjan og endurbættan vef og svona má lengi telja. Það eru spennandi tímar framundan og hef ég áhuga á að fylgja þeim framtíðarverkefnum eftir með hag félagsmanna að leiðarljósi. Við í stjórninni erum samstilltur hópur og á grundvelli alls þess vil ég starfa áfram í ykkar þágu.
Stefnumál
Ásamt því að vinna að bættum kjörum og velferð félagsfólks langar mig að vinna að:
- efla samstarf meðal stéttarfélaga á vettvangi BHM
- bæta aðgengi háskólanema að Fræðagarði
- auka þjónustu fyrir félagsfólk
- koma á frekara samstarfi við stjórnvöld varðandi kjaramál
- efla fagdeildir innan félagsins
- auka samráð við félagsfólk
Það eru spennandi og krefjandi tímar framundan í okkar samfélagi. Ég vil gjarnan leggja mitt af mörkum fyrir hag okkar félagsfólks. Ég óska því eftir stuðningi ykkar til áframhaldandi stjórnarsetu í Fræðagarði.