Beint í efni

Félagsstarf Fræðagarðs

Í Fræðagarði er gífurlega fjölbreyttur hópur fólks

Félagsfólk hefur allskonar menntun og vinnur á allskonar vinnustöðum. Félagið fer ört stækkandi og t.d. má nefna að á síðasta ári fjölgaði félagsfólki að meðaltali um 16% eða um 268 manns

Gagnvirkt mælaborð

Hér má sjá gagnvirkt mælaborð með upplýsingum um félagatal Fræðagarðs.

Aðalfundur Fræðagarðs 2022

Aðalfundur Fræðagarðs var haldinn 28. febrúar 2022. Á fundinum voru samþykktar tvær ályktanir og ein tillaga til nýrrar stjórnar félagsins.

Lagði aðalfundur í hendur stjórnar Fræðagarðs að hefja heildarendurskoðun laga félagsins og leggja fyrir aðalfund 2023. Aðalfundur samþykkti einnig tvær ályktanir, önnur hvað varðar einelti, áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði og hin brýning til stjórnvalda að standa vörð um kaupmátt.

Námskeið og fræðsla

Fræðslunefnd tók til starfa á starfsárinu skipuð Helgu Björgu Kolbeinsdóttur, Ágústi Arnari Þráinssyni, Eðvald Einari Stefánssyni og Sunnu Björgu Arnardóttur í samstarfi með Fræðslumiðstöð Vestfjarða og stóð nefndin að sex rafrænum námskeiðum á árinu. Á vorönn voru haldin námskeið um þrautseigju, næringu og hreyfingu og fjármál við starfslok. Á haustönn var lögð áhersla á námskeið sem gögnuðust þeim sem eru að hugsa um breytingar á starfi sínu og að námskeiðin mynduðu samfellu. Kennd voru námskeið um gerð ferilskráa, kynningarbréf og starfsviðtöl. Námskeiðin voru fjölsótt. Fræðslunefndin auglýsti eitt námskeið á pólsku á árinu, um markmið og þrautseigju, en það var fellt niður vegna lítillar skráningar

Félagsfólk Fræðagarðs hefur enn fremur kost á að sækja fræðslu á vegum BHM og í rafræna fyrirtækjaskóla Akademias.

Faghópar Fræðagarðs

Í Fræðagarði eru sjö starfandi faghópar: faghópur djákna, faghópur íþróttafræðinga, faghópur listmeðferðarfræðinga, faghópur talmeinafræðinga, faghópur táknmálstúlka, faghópur tómstunda- og félagsmálafræðinga og annars fagfólks í tómstundastarfi og faghópur safnafólks. Þar af voru þrír hópar stofnaðir á árinu: faghópar listmeðferðarfræðinga, táknmálstúlka og tómstunda- og félagsmálafræðinga.

Stjórn félagsins og fulltrúar formlegra faghópa á vegum félagsins mynda fulltrúaráð þess. Fulltrúar faghópa eru stjórn félagsins til ráðgjafar í stefnumótandi málum og kom fulltrúaráð saman tvisvar á árinu, til að ræða um áherslur í komandi kjaraviðræðum og til að ræða starfsreglur um starfsemi og umgjörð faghópa innan félagsstarfs Fræðagarðs.

Nýjar reglur um starfsemi faghópa innan Fræðagarðs voru samþykktar af stjórn félagsins í lok ársins eftir samráð við fulltrúaráð.

Stjórn Fræðagarðs hefur mikinn hug á því að stórefla starf faghópa á næstu árum og efla þar fagþróun félagsfólks. Félagsfólk í Fræðagarði hefur margar ólíkar námsgráður og í heildina hefur félagsfólk fengið prófgráður í um það bil 100 ólíkum fögum. Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þær tuttugu námsgráður sem flest félagsfólk hefur lokið. Ljóst er að stór tækifæri felast í því að fjölga faghópum innan félagsins og efla starf þeirra.

Námsfólk

Fræðagarður hefur á árinu lagt áherslu á að reyna að ná til námsfólks og hvetja fólk í háskólanámi að ganga í félagið. Félagið hefur haldið fjóra kynningarfundi fyrir námsfólk á árinu þar sem nemendafélögum er boðið að fræðast um starfsemi félagsins og mikilvægi stéttarfélaga á vinnumarkaðnum.

Fræðagarður hefur einnig fundað með hagsmunasamtökum námsfólks til að fá upplýsingar um hvaða stuðning þau telji mikilvægt að námsfólk fái frá stéttarfélögum. Formaður og kynningarstjóri félagsins funduðu á árinu með Q – félagi hinsegin stúdenta og LÍS.

Þessir fundir eru fyrsta skrefið í allsherjar endurskoðun á starfi Fræðagarðs með námsfólki en ljóst er að ef félagið á að gera sig gildandi til framtíðar þurfum við að ná til ungs fólks þegar það er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum. Stjórn Fræðagarðs hefur mikinn hug á að halda þessari stefnumótun áfram á nýju ári.

Fræðagarður og BHM

Fræðagarður er stærsta aðildarfélag innan BHM, heildarsamtaka háskólamenntaðs launafólks á Íslandi og tekur virka þátttöku í starfi bandalagsins. Formaður Fræðagarðs, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, situr fyrir hönd félagsins í formannaráði BHM og fulltrúar félagsins starfa í fjölda stjórna, nefnda og starfshópa innan bandalagsins.

Fræðagarður á aðild að sjóðum sem reknir eru af BHM. Á árinu lagði félagið fram ályktanir á fulltrúaráðsfundum tveggja þessara sjóða, Sjúkrasjóðs BHM og Styrktarsjóðs BHM sem voru samþykktar. Í þessum ályktunum var vísað til stjórna sjóðanna að gerðar yrðu úttektir á þeim hluta úthlutunarreglna sjóðanna þar sem kveðið er á um að meðferðaaðili þurfi að hafa löggildingu og/eða starfsleyfi frá landlækni og að í þeirri úttekt skyldi bera saman reglur sjóðanna hvað þetta varðar við reglur annarra sambærilegra sjóða; enn fremur að stjórnir sjóðanna skyldu leggja fram tillögur hvernig hægt sé að víkka út styrkhæfni meðferða og meðferðaraðila.

Stjórnir beggja sjóðanna héldu fulltrúaráðsfund í lok ársins þar sem kynntar voru þær úttektir sem unnar voru á grundvelli ályktananna. Þeim úttektum fylgdu ekki tillögur um útvíkkun þar sem stjórnir sjóðanna stefna á nýju ári í heildarúttekt á öllum sjóðum BHM og sú vinna á betur heima þar.

Erlent samstarf

Stjórn Fræðagarðs sótti á árinu Nordiskt Akademikerforum í Helsinki, Finnlandi, samráðsvettvang norrænu heildarsamtaka háskólamenntaðs launafólks sem haldin er þriðja hvert ár. Ásamt BHM taka þátt í því samráði Akademikerne í Danmörku (AC), AKAVA í Finnlandi, Akademikerne í Noregi og SACO í Svíþjóð (Sveriges Akademiker).

Þema samráðsfundarins í ár var Evrópa framtíðarinnar – lýðræði og styrkur og var til umfjöllunar fundarins hvernig samtök háskólafólks geti lagt sitt af mörkum til að efla lýðræðið og styrkja samfélagsbönd innan Evrópu, ásamt því að fara yfir áskoranir sem blasa við háskólamenntuðu starfsfólki í alþjóðavæddum heimi.

Í kjölfar fundarins vann stjórn skýrslu um þær hugmyndir sem vöknuðu eftir umræðu fundarins sem og hugmyndir um aðgerðir sem Fræðagarður geti gripið til á næstu misserum. Næsti samráðsfundur heildarsamtakanna verður haldinn á Íslandi og mun BHM skipuleggja þann fund. Í ljósi þess vann stjórn Fræðagarðs einnig skýrslu um skipulag og framkvæmd fundarins í Helsinki og hvernig við getum gert betur þegar að okkur kemur að halda samráðsfundinn. Er þetta liður í starfi Fræðagarðs að sýna þjónandi forystu innan bandalagsins.

Formaður og varaformaður fóru á árinu í fræðsluferð til Stokkhólms og Brussel til að kynnast starfsemi stéttarfélaga í Svíþjóð sem og starfsemi alþjóðastofnana og hagsmunasamtaka í Brussel. Var ferðin skipulögð af þjónustuskrifstofu félagsins og hana sóttu einnig hluti starfsfólks skrifstofunnar og kjörnir fulltrúar frá systurfélögum okkar fjórum á skrifstofunni.

Í Stokkhólmi voru heimsóttar skrifstofur stéttarfélaganna Akavia, DIK, LO og SACO. Í Brussel voru heimsóttar skrifstofur ETUC – heildarsamtök stéttarfélaga í Evrópu, sendiskrifstofur norrænu verkalýðsfélaganna í Brussel, alþjóðastofnanirnar EFTA og NATO, sendiráð Íslands í Brussel og European Women‘s Lobby – regnhlífasamtök femínísku hreyfingarinnar í Evrópu.

Formaður stjórnar skrifaði skýrslu um fræðsluferðina í lok ferðarinnar þar sem lagðar eru fram tillögur um umbætur á starfi Fræðagarðs, sérstaklega þegar kemur að lýðræðisferlum innan félagsins, nýliðun innan félagsins meðal háskólanema, verkefni til að tryggja stöðu sjálfstætt starfandi, leiðir til að tryggja inngildingu og fjölbreytni innan félagsins og á íslenskum vinnumarkaði og ferla sem félagið getur nýtt sér á alþjóðlegum vettvangi til að styrkja baráttumál sín á íslenskum vinnumarkaði. Litið var til þessarar skýrslu við heildarendurskoðun á lögum félagsins og í því stefnumótunarstarfi sem fór fram á árinu. Mun skýrslan reynast vel í því starfi sem nú er hafið á skrifstofu félagsins að auka nýliðun innan félagsins og þá sérstaklega meðal háskólanema.