Beint í efni

Faghópar Fræðagarðs

Faghópar Fræðagarðs vinna að framgangi sinnar fagstéttar og stuðla að aukinni þekkingu og framþróun hver á sínu sérsviði.

Hlutverk faghópa

Faghópar Fræðagarðs vinna að framgangi sinna fagstétta og stuðla að aukinni þekkingu og framþróun hver á sínu sviði.

Faghópar bera ábyrgð á innra skipulagi sínu, starfa í samræmi við starfsreglur sem stjórn félagsins setur þeim og eru stjórn til ráðgjafar. Faghópar gæta þess að allt félagsfólk sem til þess hefur rétt eigi kost á að taka þátt í starfsemi hópsins.

Formaður og fulltrúar faghópa á vegum félagsins mynda fulltrúaráð Fræðagarðs.

    Vilt þú stofna faghóp?

    Þegar faghópur er stofnaður þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

    • Félagsfólki í Fræðagarði er heimilt að stofna faghóp á sínu fagsviði innan Fræðagarðs.
    • Valið nafn faghóps og skráð lýsing og markmið hans til birtingar á vefsíðu Fræðagarðs.
    • Kosinn fulltrúi faghóps sem er félagi í Fræðagarði og tekur sæti á fulltrúaráðsfundum Fræðagarðs.
    • Tilkynna þarf formanni Fræðagarðs formlega um stofnun faghóps sem leggur málið formlega til afgreiðslu stjórnar Fræðagarðs.

    Fríðindi til faghópa

    Öflugt starf faghópa innan félagsins skiptir gífurlega miklu máli fyrir jafn fjölbreytt stéttarfélag og Fræðagarð. Það gefur félaginu færi á að skilja betur hagsmuni félagsfólks og virkjar auk þess félagsfólk í þeirri mikilvægu hagsmunabráttu sem félagið sinnir. Sökum þess þá leggur Fræðagarður mikið upp úr því að standa vörð um hagsmuni faghópa sem starfa innan félagsins með margvíslegum hætti.

    Öflugt fræðslustarf

    Fræðagarður styrkir fræðslustarfsemi faghópa með því að veita styrki fyrir húsnæði, veitingum og fyrirlesurum á námskeiðum og ráðstefnum faghópa, að hámarki 100.000 kr. á ári.

    Aðkoma að kjaramálum

    Faghópar Fræðagarðs eiga aðkomu að umræðu um kjaramál í fulltrúaráði félagsins. Sé þörf á úttekt eða nánari skoðun á kjaramálum félagsfólks í viðkomandi faghóp getur félagið látið framkvæma slíka úttekt.

    Traust bakland

    Fræðagarður kynnir starf faghópa félagsins, m.a. með því að halda úti á vefsíðu sinni kynningu á faghópum, þar sem m.a. er að finna upplýsingar um hvernig félagsfólk Fræðagarðs geti tekið þátt í starfi hópsins. Þurfi faghópur á fjármunum að halda fyrir ákveðin verkefni er hægt að leita til félagsins til að aðstoða við öflun þeirra.

    Dýrmæt þjónusta

    Faghópar Fræðagarðs hafa aðgang að þjónustuskrifstofu félagsins þar sem starfa sérfræðingar á hinu ýmsu sviðum er tengjast kjara- og réttindamálum, kynningar- og samskiptamálum og fjármála- og rekstrarmálum.

    Faghópur arkitekta

    Faghópur arkitekta innan Fræðagarðs er vettvangur þeirra sem vilja starfa að kjaramálum arkitekta. Megintilgangur hópsins er að standa vörð um kjör og réttindi arkitekta og endurmenntun þeirra.

    Arkitektúr er faggrein sem hægt er að stunda ýmist við háskóla eða listaháskóla sem BA-, MA- og doktorsnám. Arkitekt er lögverndað starfsheiti sem háð er leyfi frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og krefst 300 ECTS eininga náms í arkitektúr við háskóla sem ráðuneytið viðurkennir.

    Leyfi til að leggja fram aðaluppdrætti vegna byggingaleyfa öðlast arkitektar með því að standast próf um löggildingu mannvirkjahönnuða, hafa öðlast löggildingu á starfsheitinu arkitekt og geta sýnt fram á 3 ára starfsreynslu.

    Störf arkitekta spanna vítt svið, allt frá skipulagsgerð og hönnun mannvirkja til kennslu og rannsókna. Arkitektar eru starfandi hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum markaði, þá ýmist sem launafólk eða sjálfstætt starfandi.

    Faghópur djákna

    Djáknar eru vígðir af biskupi til að starfa við söfnuði, félagasamtök og hjúkrunarstofnanir. Hlutverk þeirra er að sinna fjölþættri kærleiksþjónustu, með sálgæslu, fræðslu og hvers kyns félags- og hópastarfi með fólki á öllum aldri.

    Faghópur íþróttafræðinga

    þróttafræðingar hafa að leiðarljósi að bæta heilsu fólks, fyrirbyggja sjúkdóma og aðstoða einstaklinga við að ná bata eftir veikindi. Í því skyni setja íþróttafræðingar saman einstaklingsmiðaðar áætlanir, aðstoða við að fylgja þeim og leggja þar áherslu á hreyfingu sem mikilvægan þátt í forvörnum og heilsueflingu. Íþróttafræðingar vinna hvort tveggja með einstaklinga og hópa.

    Í starfi sem íþróttafræðingur gætirðu unnið margvísleg störf svo sem við íþróttaþjálfun, kennslu í grunn- og framhaldsskólum, þjálfun í líkamsræktarstöðvum (einkaþjálfun) eða forvarnarvinnu innan fyrirtækja og félagasamtaka.

    Faghópur listmeðferðarfræðinga

    Listmeðferð er meðferðarleið sem byggir á sálfræðikenningum og myndsköpun. Í listmeðferð er einstaklingnum skapað rými til persónulegrar tjáningar á tilfinningum og hugarheimi með fjölbreytilegum myndlistarefnivið, í öruggu umhverfi undir umsjón listmeðferðarfræðings. Til að mega starfa sem listmeðferðarfræðingur þarf að ljúka tveggja ára meistaranámi frá viðurkenndum háskóla erlendis. Grunnkrafa er um BA/BS gráðu eða sambærilegt námsstig

    Faghópur safnafólks

    Er vettvangur fyrir alla sem starfa á vettvangi byggða-, lista-, og náttúrufræðisafna, safnvísa, setra og stofa. Einnig er deildin fyrir þá sem hafa lokið námi í greinum sem nýtast í starfsemi þessarar tegundar safna.

    Faghópur talmeinafræðinga

    Talmeinafræðingar starfa í leikskólum, skólum, á sjúkrahúsum, endurhæfingarstöðvum, greiningarteymum og á eigin stofum. Talmeinafræðingar vinna í nánu samstarfi við kennara, lækna, sálfræðinga og aðrar uppeldis-og heilbrigðisstéttir. Skjólstæðingar eru á öllum aldri, allt frá ungabörnum til aldraðra.

    Talmeinafræði er fag í stöðugri þróun sem fylgir framförum og nýjungum innan heilbrigðis- og menntakerfisins. Talmeinafræðingar leggja mikla áherslu á endurmenntun og rannsóknir í störfum sínum.

    Faghópur táknmálstúlka

    Táknmálstúlkar vinna við að túlka við allar aðstæður daglegs lífs. Verkefni táknmálstúlka má því finna víða í samfélaginu þó flest séu innan skólakerfisins í tengslum við menntun heyrnarlausra á öllum skólastigum. Önnur verkefni tengjast þjónustu hins opinbera, þátttöku í atvinnulífi og frístundastarfi eða viðburðum á borð við fyrirlestra, kirkjuathafnir, námskeið, læknisviðtöl og meðferðir, ráðstefnur, fundi og samkomur.

    Faghópur tómstunda- og félagsmálafræðinga og annars fagfólks í tómstundastarfi

    Tómstundastarf gegnir mikilvægu menningar- og uppeldishlutverki í nútímasamfélagi. Í tómstunda- og félagsmálafræði er fjallað um gildi, þýðingu og hlutverk tómstunda- og félagsmálastarfs fyrir fólk á öllum aldri. Sérfræðiþekking tómstunda- og félagsmálafræðinga felst m.a. í að leiða saman hópa, stuðla að félagslegum þroska og hæfni með fjölbreyttum viðfangsefnum.

    Faghópar Fræðagarðs eru hjartað í félagsstarfinu og einstakt tækifæri til að auka samráð félagsfólks og stjórnar. Ég er þakklát fyrir öflugt starf faghópanna okkar og hlakka til að halda áfram að starfa að áframhaldandi uppbyggingu þeirra og bættri þjónustu. Ég hvet öll í Fræðagarði sem vilja vinna að framgangi sinna fagstétta að hafa samband við okkur til að fræðast um hvernig þau geti starfað á vettvangi faghópa.

    Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir formaður Fræðagarðs