Beint í efni

Brynjar Huldu Harðarson

Framboð til stjórnar Fræðagarðs 2023

Ég heiti Brynjar Huldu Harðarson, genginn á 53. aldursár, fæddur og uppalinn í Keflavík ásamt því að eyða all flestum sumrum hjá ömmu og afa á Laugarvatni fram á unglingsár. Ég starfa sem verkefnastjóri með sértæka ábyrgð í Heiðarskóla í Reykjanesbæ, hef umsjón með bókasafninu og er með tölvuumsjón.

Ég hef áhuga á mörgu, er mikill íþróttafíkill og gallhaður stuðningsmaður Liverpool, já, ég þori alveg að segja frá því þessa dagana.

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnar Fræðagarðs því mér hefur fundist vanta rödd þeirra, sem búa svo illa að vinna hjá sveitarfélögunum, í stjórn félagsins. Ég er tilbúinn til að ljá rödd mína til baráttu þeirra, sem og allra háskólamenntaðra, fyrir betri kjörum og ég lofa að hafa hátt.

Ég hef miklar og sterkar skoðanir á kjaramálum háskólamenntaðra og finnst félagið, sem og BHM í heild sinni, hafa brugðist félagsmönnum sínum þegar kemur að veigamiklum hagsmunum háskólamenntaðs fólks og sérstaklega þeim sem starfa hjá sveitarfélögunum, sem skrapa botninn þegar kemur að launasetningu. Ég hef oft nefnt þau kyndilbera íslenskrar láglaunastefnu.

1. Leiðrétta skakkt verðmætamat kvennastétta, sem rannsóknir sýna að sitja verulega eftir í launum í sambanburði við karlastéttir.

2. Leiðrétta laun á milli markaða. Ríkisstarfsmenn eru 22% lægri en á almenna markaðinum en starfsmenn sveitarfélaganna heilum 35% lægri.

3. Meta menntun til launa. Það kemur í ljós að hvergi er ávinningur þess að mennta sig minni en hér á landi og þetta þarf að leiðrétta.

4. Það er kominn tími til að sækja aftur samningsréttinn úr höndum ASÍ og félaga innan þess.

Ég heyri og sé að ég á samhljóm með formönnum Fræðagarðs og BHM í þessu, nú þarf að fara að gera eitthvað í þessu og ég vil leggja mitt á vogarskálarnar í þeirri baráttu.

Með von um ykkar stuðning,

Brynjar Huldu Harðarson.