Beint í efni

Þjónustuskrifstofa FHS

Þjónustuskrifstofa Félaga háskólamenntaðra sérfræðinga er sameiginleg skrifstofa fimm stéttarfélaga

Fræðagarður er aðili að rekstri Þjónustuskrifstofu FHS ásamt Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS), Félagi íslenskra félagsvísindamanna (FÍF), Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU), og Stéttarfélagi lögfræðinga (SL). Þjónustuskrifstofan hefur verið starfrækt síðan í nóvember 1999 og situr formaður Fræðagarðs í stjórn skrifstofunnar fyrir hönd félagsins

Þjónustuskrifstofan sér m.a. um samskipti við félagsfólk í gegnum síma, tölvupóst og vefmiðla; að aðstoða félagsfólk á sviði kjara- og réttindamála; að aðstoða við lausn ágreiningsmála er varða framkvæmd og túlkun kjarasamninga; að aðstoða félagsfólk við að leita lögfræðilegrar ráðgjafar í málum sem falla undir starfssvið stéttarfélags; að vinna að gerð kjarasamninga fyrir stéttarfélögin fimm, bæði miðlæga kjarasamninga og stofnanasamninga í umboði stjórna félaganna; að aðstoða við gerð ráðningarsamninga og túlkun á þeim og að aðstoða við útreikninga á launum og innheimtu ef þörf krefur.

Starfsfólk Þjónustuskrifstofu FHS

Nú starfa á þjónustuskrifstofunni Anna S. Ragnarsdóttir skrifstofustjóri, Gauti Skúlason verkefnastjóri samskipta og þjónustu, Hjalti Einarsson vinnusálfræðingur, Georg Brynjarsson framkvæmdastjóri, Júlíana Guðmundsdóttir lögfræðingur og Halldór K. Valdimarsson fjármálastjóri. Álag á skrifstofunni hefur aukist jafnt og þétt og undir lok starfsársins ákvað stjórn þjónustuskrifstofunnar að skoða frekari ráðningar á skrifstofunni með það fyrir augum að halda áfram sókn til betri þjónustu við félagsfólk.

Unnið var að ýmsum framfaramálum á skrifstofu félagsins á starfsárinu. Til að mynda var lokið við innleiðingu upplýsingakerfisins Kjaragátt FHS. Nú er hægt að tryggja örugga umsýslu fyrirspurna og erinda frá félagsfólki, viðhalda sögu samskipta við félagsfólk og auka yfirsýn. Þá er innleiðingunni jafnframt ætlað að koma til móts við auknar kröfur um persónuvernd. Verkefnið fékk heitið Kjaragátt FHS sem byggir ofan á Microsoft Dynamics CRM grunninum. Í Kjaragátt er jafnframt nýtt félagatal með bættum möguleikum til greiningar félagatalsins. Með beintengingum upplýsingakerfa gefst stjórnendum og starfsfólki skrifstofunnar kostur á því að skoða þróun félagsfólks með tilliti til launa, kynja, staðsetningar, menntunar og vinnumarkaðar. Í þessu felst breyting því fyrri kerfi kölluðu á nokkra vinnu við útkeyrslu gagna til greininga og nýtt kerfi styttir viðbragðstíma, t.d. í kjaraviðræðum og við gerð stofnanasamninga.

Regnbogavottun

Skrifstofa Fræðagarðs hlaut á árinu Regnbogavottun Reykjavíkurborgar. Markmiðið með vottuninni er að gera starfsemina hinseginvænni, bæði fyrir starfsfólk og skjólstæðinga og þannig koma í veg fyrir beina og óbeina mismunun í garð hinsegin fólks.

Regnbogavottunin byggir á sambærilegum vottunarferlum og hjá t.d. Human Rights Campaign, Stonewall UK og RFSL í Svíþjóð þar sem skilyrði eru sett um að stefnur fyrirtækja nefni hinsegin fólk og að réttindi og jöfn staða hinsegin starfsfólks séu tryggð. Til þess að bæta starfsumhverfið sem og þjónustuna fyrir hinsegin fólk er fræðsla um hinsegin málefni og ríkjandi viðmið í samfélaginu. Einnig er leitað leiða til að gera starfsemina hinseginvænni.

Ferlið sjálft felur í sér spurningalista um starfsstaðinn, úttekt á skrifstofurýminu, fræðslu fyrir starfsfólk og endurgjöf. Aðgerðaáætlun Þjónustuskrifstofu FHS er í ellefu liðum og verður endurskoðuð árlega.

Georg Brynjarsson framkvæmdastjóri Fræðagarðs og Friðrik Jónsson formaður BHM í Reykjavík Pride göngunni fyrr á þessu ári. BHM og aðildarfélög þess tóku þátt í göngunni.